Taugaklemma framkvæmdi hríðir hjá kvígunni Guttu í fjósi Haraldar bónda – og ræðuritara.

Albesta ræðan sem aldrei var flutt

Ekki verða allar ferðir til fjár. Eina slíka gerði Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og bóndi á Alþingi í gærkvöldi. Honum hafði verið falin sú ábyrgð og virðingarhlutverk að verða ræðumaður Sjálfstæðisflokksins í þriðju umferð elhússdagsumræðu. Ræðu samdi hann allgóða og æfði vel og lengi, enda er slíkum ræðuflutningi sjón- og útvarpað í beinni. En aldrei var ræðan flutt. Formaðurinn Bjarni Benediktsson hafði misskilið lengd þess ræðutíma sem hann hafði til umráða og eyddi upp öllum þeim mínútum sem Haraldur hafði til flutnings sinnar ræðu. En vinnudegi Haraldar var engan veginn lokið. Heima á Vestra-Reyni var kvígan Gutta að bera fyrsta kálfi og var því brunað frá Austurvelli og heim í fjós með hraði. Í ljós kom þó að hinar meintu fæðingarhríðir reyndust falskar, rétt eins og vonin um ræðuflutninginn. Kvígan var alls ekki að bera heldur hafði ófæddur kálfurinn skorðað sig fastan og þrýst á taugaenda sem framkölluðu hríðir. „Þetta fór því eins og tímamótaræðan sem ég mætti með í þingið í kvöld – en flutti aldrei. Ræðan ekki flutt og enginn kom kálfurinn. Í lok dags var ég samt sáttari við kvíguna,“ skrifar Haraldur í léttum dúr.

Haraldur bóndi. Ljósm. úr safni/FH.

Af virðingu við bóndann og ræðuritarann birtir Skessuhorn hér eldhúsdagsræðu Haraldar Benediktssonar:

 

„Virðulegi forseti!

Í ár minnumst við aldarafmælis fullveldis þjóðar okkar. Í 100 ár höfum við ráðið málum okkar sjálf – verið okkar eigin gæfusmiðir. Engin getur sagt annað en að okkur hafi vel tekist til. Sumt hefur okkur tekist síður. En enginn velkist í vafa um góðan árangur okkar.

Við upphaf þessa þings standa lífskjör framar en nokkurn tímann áður. Auðvitað má gera betur – en til þess verðum við að beita nýjum aðferðum – öðrum lausnum. Hugsa stærra.

Fullveldi okkar tryggði m.a. yfirráð yfir auðugum fiskimiðum. Með því að tryggja og treysta landhelgina lögðum við grunn að sterku samfélagi. Með öflugum sjávarútvegi byggðum við öfluga velferð – fámenn og fátæk þjóð við upphaf síðustu aldar. En í dag ein sú ríkasta.

Við höfum haft fullveldi og áræðni til að nýta landið okkar – framleiða mikið magn af hreinni og endurnýjanlegri orku. Sem hefur auðgað og styrkt okkar efnahagslíf.

Við erum þjóð sem nýtum gæði náttúrinnar.

Við höfum byggt þessa stöðu upp á viðskiptum við aðrar þjóðir – á okkar eigin forsendum. Sagan geymir hvernig okkur vegnar undir yfirstjórn annarra en okkar.

Ein af stoðum okkar er samstarf innan EES. Samningur sem nú er aldarfjórðungs gamall og tímabært fyrir okkur að endurmeta reynslu hans og framkvæmd.

Enginn skal efast um vilja okkar til að starfa áfram innan hans. Enda er hann grundvöllur að margháttuðu frelsi, sem okkur finnst í dag sjálfsögð og við tökum ekki lengur eftir.

En það kemur ekki í veg fyrir að við verðum að gera upp við okkur – horfast í augu við hvernig við höfum umgengist hann sjálf.

Við eigum að ekki að loka augunum fyrir það sem er neikvætt, í framkvæmd hans er okkur sjálfum að kenna.

Aðildarumsókn Íslands að ESB er eitt af þeim.

Með aðildarumsókn okkar lögðum við niður og veiktum vakt okkar um eigin hagsmuni á vettvangi EES.

Það verður seint ofmetið hvaða tjón aðildarferlið leiddi yfir okkur.

Að hafa veikt varðstöðu okkar um eigin málefni – taka ekki þátt á fyrri stigum ákvarðana og sitja síðan uppi með stöðu sem við teljum ekki samræmast okkar hagsmunum okkar og fullveldi. Við skulum heldur ekki þræta fyrir – að sjálf höfum við mögulega oftúlkað og gengið lengra en nauðsynlegt er í framkvæmd og innleiðingu.

Í fjárlagafrumvarpi því sem nú hefur verið kynnt og þeirri fjármálaáætlun sem samþykkt var í vor er mörkuð endurreisn hagsmunagæslu Íslands. Hæstv, utanríkisráðherra hefur með skýrum hætti varðað leið til öflugri vinnu á þessu sviði.

EES samningurinn byggir á að þjóðarbandalag og þjóðríki hafa samið um ákveðna tilhögun samskipta. Endurmat – endurskoðun og rýni af okkar hálfu undirbyggir að treysta það samband sem samningurinn tryggir – enda er hann ein af gildustu stoðum undir efnahagslega velferð okkar.

Framkvæmd EES samningsins er lifandi verkefni – samstaðan um hann hér á landi er undirbyggð á því að við látum ekki af hendi full yfirráð yfir því sem grundvallar tilveru okkar í þessu landi – að nýta náttúrugæði okkar – og hafa á þeim fulla stjórn.

 

Virðulegi forseti.

Hæstv. forsætisráherra gerði í stefnuræðu sinni að umtalsefni tíðarfar liðins sumars. Það er umræða sem við eigum hér að taka fastari tökum. Afleiðingar þurrka, skógarelda munu leiða á næstu mánuðum til mikilla sviptinga á verði matvæla. Uppskerubrestur, víða um heim ekki bara hjá okkar næstu nágrönnum, gengur á næstu mánuðum mjög nærri matarbirgðum heimsins. Til skamms tíma verður mikið verðfall á matvælum – eins og kjöti – því víða þurfa bændur að skera niður bústofn sinn vegna fóðurskorts og hækkandi verðs á fóðri.

Til lengri tíma verður veruleg hækkun á sömum vörum. Þegar sjáum við á mörkuðum ákveðna þróun í þá átt.

Það er þess vegna sem flestar þjóðir hafa aldrei látið óheft markaðslögmál gilda um matvælaframleiðslu sína. Skynsamir stjórnmálamenn vita að ekkert er eins viðkvæmt og framboð matvæla – verð á þeim og aðgengi.

Ég hvet til yfirvegaðar umræðu um þessi verkefni sem önnur. Ekki síst það hlutverk sem íslenskur landbúnaður hefur, á viðsjárverðum tímum.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir