Eyjólfur Ásberg Halldórsson á fleygiferð í leiknum í gær. Ljósm. Skallagrímur.

Sigur í æfingaleik í Borgarnesi

Undirbúningtímabilið fyrir Íslandsmótið í körfuknattleik er að hefjast hjá flestum liðum um þessar mundir. Í gærkvöldi tóku Skallagrímsmenn á móti ÍR í fyrsta æfingaleik sínum á heimavelli fyrir komandi átök í Domino‘s deild karla. Borgnesingar byrjuðu með Eyjólf Ásberg Halldórsson, Björgvin Hafþór Ríkharðsson, Bjarna Guðmann Jónsson og erlendu leikmennina tvo; þá Aundre Jackson og Matej Buovac.

Borgnesingar mættu ákveðnir til leiks og leiddu 25-19 að loknum fyrsta leikhluta. Þeir héldu uppteknum hætti í öðrum fjórðungi, léku sterka vörn og keyrðu upp hraðann og leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 54-43.

Gestirnir náðu góðum spretti í þriðja leikhluta og tókst að minnka muninn í þrjú stig áður en Eyjólfur Ásberg tók góða einstaklingsrispu í lok þriðja og byrjun fjórða leikhluta. Hann skoraði tíu stig í röð og lagði grunn að sex stiga sigri Skallagríms, 102-96.

Aundre var stigahæsti maður vallarins með 28 stig á 52% skotnýtingu. Eyjólfur Ásberg var með 26 stig, 5 fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta, Matej Buovac skoraði 18 stig og tók 7 fráköst, Björgvin Hafþór skoraði 12 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

„Flott frammistaða hjá okkar mönnum sem lofar góðu fyrir framhaldið. Liðið fékk flott framlög frá erlendu leikmönnum sínum, sem virðast passa eins og flís við rass inn í liðið,“ segir á Facebook-síðu kkd. Skallagríms.

Næsti æfingaleikur Skallagríms er á útivelli gegn Þór Þorlákshöfn sunnudaginn 23. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira