Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fjölþættar aðgerðir kynntar til verndunar íslenskri tungu

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag í Veröld – húsi Vigdísar, aðgerðaáætlun til varnar íslenskri tungu. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Tillögur ráðherrans eru fjórþættar og marka þær allar þáttaskil í afstöðu ríkisins til máltækni, bókaútgáfu og síðast en ekki síst er þetta í fyrsta skipti í áratugi sem ríkið tekur til varna fyrir einkarekna íslenska fjölmiðla.

 

Fjórar megintillögur

Í fyrsta lagi er stefnt að endurgreiðslu kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka þannig að um fjórðungur af útgáfukostnaði hverrar bókar verður styrktur úr ríkissjóði. Í annan stað á að veita styrki út á kostnað við rekstur ritstjórna sjálfstætt starfandi fjölmiðla og um leið draga úr vægi RUV á auglýsingamarkaði sem nemur 560 milljónum króna á ári. Í þriðja lagi á að fara í ýmsar aðgerðir til eflingar máltækni og auka á opinberan stuðning við textun, táknmálstúlkun og talsetningu í myndmiðlum. Loks skal auka vægi íslenskumenntunar á öllum skólastigum. Fram kom hjá ráðherra að stefnt er að samræmingu skattlagningar vegna kaupa á auglýsingum milli íslenskra og erlendra netmiðla. Þannig er til skoðunar að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Horft er til nágrannalanda og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar. Þessar tillögur miða allar að því að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra miðla. Þá hyggst ráðherra jafnframt auka gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum.

 

Bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla

Fram kom í kynningu ráðherra að stefnt er á að verja um 400 milljónum króna á ári til þess að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi en þeir hafa verulega átt í vök að verjast fjárhagslega bæði vegna ójafnvægis á fjölmiðlamarkaði innanlands en ekki síður vegna erlendra miðla sem sogað hafa til sín íslenskt markaðsfé, án þess að greiða af því skatta. Til stendur að endurgreiða hluta ritstjórnarkostnaðar ritmiðla og ljósvakamiðla sem miðla fréttum, fréttatengdu efni „og gegna mikilvægu samfélagshlutverki,“ eins og segir í kynningu ráðuneytisins. Skilyrði fyrir endurgreiðslunni verða skýr og bundin við hámark í hverju tilfelli. Ekki er búið að útfæra nákvæmlega reglur þar að lútandi en fram kom í máli ráðherra að styrkur til reksturs ritstjórna gæti legið á bilinu 20-25% af heildarkostnaði. „Styrkveitingar verða fyrirsjáanlegar, óháðar tæknilegri útfærslu og mynda ekki hvata til þess að fara fram hjá kerfinu né skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Samhliða verður dregið úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði svo sem með hömlum á kostun dagskrárgerðar. Lilja hyggst í upphafi næsta árs leggja fram frumvarp á Alþingi en það verður til umsagnar í nóvember. Hún segir að um sé að ræða sögulega aðgerð en þetta er í fyrsta skipti sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla. Þeir hafa þó þekkst lengi á Norðurlöndunum og er mestur stuðningur við fjölmiðla í Noregi.

 

Stuðningur við íslenska bókaútgáfu

Lilja Alfreðsdóttir sagði við þetta tækifæri að Íslendingar væru bókaþjóð og mikilvægi hins ritaða máls væri ótvírætt. „Kveðið er á um stuðning við íslenska bókaútgáfu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og undanfarin ár hefur einnig verið unnið markvisst að því að bæta læsi á Íslandi, einkum meðal barna og ungmenna. Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Til að mæta sem best þeim vanda sem íslensk bókaútgáfa stendur frammi fyrir verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi fyrir íslenska bókaútgáfu sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætlaður árlegur kostnaður vegna þessa er um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir