Skagastelpur unnu Aftureldingu/Fram

Meistaraflokkur kvenna vann góðan sigur á sameiginlegu liði Aftureldingar/Fram í síðasta heimaleik sínum á Akranesvelli í Inkassodeildinni í gær. Leikurinn var þýðingarlítill fyrir bæði lið þar sem ljóst var að Fylkir og Keflavík eru þau tvö lið sem fara upp í Pepsídeildina að ári. Það mátti þó ekki sjá á leiknum þar sem mikil barátta einkenndi leikinn. Skagastelpur voru duglegar að sækja en náðu ekki að skapa sér nein markverð færi. Gestirnir voru engu síðri og drjúgar í sínum sóknaraðgerðum. Á 32. mínútu dró til tíðinda þegar Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir átti fína sendingu inn í teig Skagastelpna á Samira Suleman sem skilaði boltanum í netið og kom í leiðinni gestunum yfir. ÍA hélt áfram að sækja það sem af lifði hálfleiks en ekki náðu þær að skila boltanum í netið og Afturelding/Fram því með forskot þegar gengið var til klefa.

Í síðari hálfleik komu þær gulklæddu mun orkumeiri og ákveðnari til leiks og strax á 47. mínútu átti Bergdís Fanney Einarsdóttir góða sendingu á liðsfélaga sinn, Heiðrúnu Söru Guðmundsdóttur, sem lagði boltann fyrir sig og skoraði af öryggi. ÍA stúlkur voru fjarri saddar eftir jöfnunarmarkið því aftur var Bergdís Fanney á ferðinni og sendi boltann enn einu sinni fyrir markið. Þar var Unnur Ýr Haraldsdóttir á fjærstöng sem skoraði og kom ÍA yfir.

Afturelding/Fram sóttu af ákefð á þær gulu það sem eftir lifði leiks og voru nær því að jafna undir lokin en Toni Ornela, markvörður ÍA, átti frábæra markvörslu. Niðurstaðan 2-1 ÍA í vil.

Næsti leikur er jafnframt síðasti leikur ÍA á tímabilinu og fer fram á föstudaginn er þær heimsækja stelpurnar í Hömrunum í Hveragerði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir