Skallagrímur hafði betur í fjörugum leik

Skallagrímsmenn unnu baráttusigur gegn Álftanesi í undanúrslitum í fjórðu deild karla í knattspyrnu um helgina. Þónokkuð margir áhorfendur voru mættir á völlinn í Borgarnesi og veðrið var ekki til að kvarta yfir, skýjað og logn.

Mikil orka og hraði var í upphafi leiks í báðum liðum og skiptust þau á að sækja af krafti. Á 39. mínútu varð einhver vandræðagangur í vítateig heimamanna með þeim afleiðingum að Álftnesingurinn Kristján Lýðsson fann boltann og skilaði honum í netið og kom gestunum yfir. Leikurinn hélt áfram á svipuðum nótum en ekki komu fleiri mörk í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var fjörugur og á 51. mínútu náðu heimamenn að jafna metin þegar Ísak Máni Sævarsson skoraði fyrir Skallagrím. Jafnt var með liðunum og mikil barátta ríkjandi á vellinum. Á 66. mínútu kom markaskorarinn, Guillermo Gonzalez Lamarca, Skallagrími yfir í fyrsta skipti í leiknum. Forystan varði ekki lengi því Álftnesingar fengu víti strax í næstu sókn. Arnar Már Björgvinsson fór á punktinn og skilaði boltanum fast og örugglega í markið. Ennþá meira fjör færðist í leikinn og á 74. mínútu kom Sigurjón Ari Guðmundsson Skallagrími yfir á nýjan leik. Álftnesingar sóttu af mikilli ákefð í kjölfarið en ekki náðu þeir að nýta færi sín og því 3-2 sigur Skallagríms staðreynd.

Með sigrinum eru Skallagrímsmenn í forystusæti þegar liðin mætast aftur á Bessastaðavelli næstkomandi miðvikudag klukkan 17:00. Með sigri í þeim leik getur Skallagrímur tryggt sér sæti í þriðju deild á næsta tímabili.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira