Vignir Snær Stefánsson í þann mund að skora jöfnunarmark Víkings. Ljósm. gbk

Skagamenn með annan fótinn í efstu deild

Það var mikið undir hjá báðum liðum á Akranesvelli þegar Skagamenn tóku á móti Víkingi frá Ólafsvík í Inkasso-deildinni fyrr í dag. Með sigri Skagamanna gátu þeir tryggt sér sæti í Pepsi-deildinni á næsta tímabili og um leið eyðilagt vonir Víkinga að komast upp. Sigur Ólsara hefði hins vegar þýtt að Víkingur kæmist aftur í góðan möguleika að komast upp þegar aðeins tveir leikir yrðu eftir.  Bæði lið voru án lykilleikmanna; Víkingar án Kwame Quee sem er þessa helgina í landsliðsverkefni með Sierra Leone en hann hefði þrátt fyrir það ekki leikið vegna leikbanns fyrir fjögur gul spjöld á leiktíðinni. Skagamenn léku svo án Ólafs Vals Valdimarssonar sem einnig tók út leikbann og Harðar Inga Gunnarssonar sem er í landsliðsverkefni með U-21.

Skagamenn áttu fyrir leikinn fremur sárar minningar af heimsóknum Ólafsvíkur á Akranesvöll. Liðin höfðu fyrir daginn í dag mæst sex sinnum á Akranesi í Íslandsmóti og Skagamenn aðeins unnið einu sinni en 5-0 sigur Víkings árið 2013 líður Skagamönnum seint úr minni. Sú Ólafsvíkurgrýla sem hvílir yfir Akranesvelli var ekki kveðin í burtu í dag en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Stuðningsmenn beggja liða fylltu stúkuna í mildu rigningarveðri og fengu þeir töluverða skemmtun í fyrri hálfleik. Skagamenn byrjuðu leikinn ívið betur og sóttu nokkuð þungt að marki Víkings. Á 14. mínútu leiksins fengu Skagamenn svo hornspyrnu sem Ragnar Leósson tók. Ragnar sendi boltann á fjærstöng þar sem Arnór Snær Guðmundsson skallaði hann fyrir markið og þar kom Arnar Már Guðjónsson á ferðinni og kom knettinum í netið.

Leikmenn Víkings vöknuðu til lífsins við mark Skagamanna og varð jafnræði með liðunum út hálfleikinn. Það var svo komið að Ólsurum að nýta sér hornspyrnu en hana fengu þeir á 33. mínútu. Eftir fína hornspyrnu sem Árni Snær í marki Skagamann sló í burtu barst boltinn á Vigni Snæ Stefánsson sem lagði boltann fyrir sig óáreittur í teignum og lagði hann snyrtilega í markið. Staðan 1-1 eftir skemmtilegan fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var öllu rólegri og lítið um góð færi hjá liðunum. Þegar leið á hálfleikinn bættu Ólsarar í sóknina en Skagamenn virtust ætla að halda fengnum hlut. Þrátt ógn Ólsara að marki Skagamanna í restina náðu þeir ekki að skapa sér ákjósanlegt færi. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli í Vesturlandsslagnum og á heildina litið sanngjörn úrslit.

Jafnteflið þýðir að Skagamenn missa toppsætið en eru komnir í mjög góða stöðu fyrir síðustu tvo leikina og dugar þeim tvö stig úr þeim leikjum til að tryggja sæti í efstu deild. Víkingur hins vegar færðist fjær draumnum um sæti í efstu deild með úrslitum dagsins. Þeir þurfa að vinna báða sína leiki og treysta á það að Skaginn tapi báðum sínum.

Næstu leikir Vesturlandsliðanna er laugardaginn næstkomandi klukkan 14:00; Skagamenn gegn Selfossi á útivelli og Víkingur gegn Njarðvík á heimavelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira