Skagastúlkur í leik. Ljósm. úr safni SAS.

Tap á móti toppliði Keflavíkur

Skagastelpur í ÍA þurftu að sætta sig við tap gegn toppliði Keflavíkur þegar liðin mættust á Akranesvelli í gær í 14. umferð Inkassodeildar. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið sem heyja hvort um sig baráttu á toppi deildarinnar.

Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti og börðust hart um boltann til að skapa sér líkleg markfæri. Það leið ekki á löngu þangað til Sveindís Jane Jónsdóttir kom gestunum af Suðurnesjunum yfir á 15. mínútu. Það hafði þó ekki mikil áhrif á heimastúlkur sem héldu dampi og jöfnuðu metin á 37. mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði fallegt mark eftir góðan undirbúning frá liðsfélaga sínum, Maren Leósdóttur. Keflvíkingar gáfu ekkert eftir þrátt fyrir áræðni heimastúlkna og nýttu sér klaufagang í vörn þeirra gulu þegar Sophie Groff kom sínu liði aftur yfir áður en fyrri hálfleik lauk.

Í þeim síðari komu Skagastelpur vel stemmdar til leiks og átti Bergdís Fanney Einarsdóttir meðal annars þrumuskot í þverslá í upphafi seinni hálfleiks. Töluvert jafnræði var með liðum eftir þetta fína færi í dágóða stund. Leikurinn breyttist svo töluvert þegar Sveindís Jane skoraði annað mark gestanna á 78. mínútu og var sem öll orka hefði lekið úr Skagastúlkum sem áttu lítil sem engin svör eftir þetta. Sveindís skoraði sitt þriðja mark á 81. mínútu og Kristrún Ýr Hólm gerði endanlega útaf við leikinn þegar hún skoraði fimmta markið fyrir Keflavík á loka mínútunni. Niðurstaðan því 5-1 Keflavík í vil.

Þrátt fyrir tap þá heldur ÍA þriðja sætinu með 28 stig. Keflavík trónir á toppnum og er nú með 34 stig. Fylkir sigraði Hauka örugglega í umferðinni og er því með þægilegt forskot á ÍA í öðru sæti með 33 stig. Einungis fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu. Skagastúlkur taka á móti Fylki í næstu umferð á Akranesi og fer sá leikur fram næstkomandi fimmtudag klukkan 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira