Páll er hér ásamt Hirti Blöndal. Ljósm. bp.

Sveif 95 ára um háloftin í fallhlíf

Páli Bergþórssyni frá Fljótstungu, fyrrum veðurstofustjóra, er sannarlega ekki fisjað saman. Páll fagnaði fyrr í þessum mánuði 95 ára afmæli og ákvað að gefa sjálfum sér í afmælisgjöf að fara í fallhlífarstökk og kynnast þannig háloftavindunum sem hafa verið hans rannsóknar- og vísindaefni í áratugi. Farið var í lítilli flugvél upp í þriggja kílómetra hæð og svifið niður. Lendingin var mjúk og hafði Páll á orði að þetta hefði ekki verið mikið erfiðara en að ganga yfir götu. Engu að síður er líklegt að Páll sé elsti Íslendingurinn sem stokkið hefur úr flugvél í fallhlíf. Daginn eftir var Páll farinn að pósta veðurspám sínum, sem hann gerir daglega. En gefum Páli orðið um viðburð vikunnar:

„Það var ekki seinna vænna fyrir gamlan veðurvita að bregða sér í fallhlífarstökk og komast í nánara samband við loftið sem maður þykist alltaf vera að fræða aðra um. Við flugum frá Hellu á Rangárvöllum upp í þriggja kílómetra hæð og þar dembdi maður sér út úr flugvélinni, horfði til himins og skaut fótleggjunum aftur fyrir sig, því að bráðum átti fallhlífin að opnast, og þá er kippt ansi harkalega í mann þegar fallhraðinn er orðinn meiri en 200 kílómetrar á klukkustund. En skrítið er að þetta er alls ekki óþægilegra en að standa á 10 metra háum vegg. Svo gat maður bara farið að skoða dýrð fjallahringsins, hafs og lands þangað til maður „settist“ í loftinu og renndi sér eftir nýslegnum grasvelli. Vildi ekki hafa misst af þessu,“ skrifar Páll á Facebook síðu sína.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira