Ótrúleg dramatík í undanúrslitum Mjólkurbikarsins

Víkingur Ó. úr leik eftir vítaspyrnukeppni

Liðsmenn Víkings Ó. máttu játa sig sigraða gegn Breiðabliki í ótrúlegum undanúrslitaleik Mjólkurbikars karla í gærkvöldi. Blikar náðu að jafna á lokasekúndum framlengingar og sigruðu síðan í vítaspyrnukeppni.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að um hörkuleik yrði að ræða. Breiðablik var mun meira með boltann en Ólafsvíkingar vörðust vel og skipulega, með fimm manna varnarlínu og djúpan miðjumann fyrir framan vörnina. Liðsmenn Breiðabliks komust því lítt áleiðis.

Á meðan liðsmenn Víkings lögðu allt sitt kapp á að verjast þurfti sóknarleikur þeirra að gjalda fyrir það. Fram á við var fátt um fína drætti hjá Ólafsvíkingum, þar til þeir fengu hornspyrnu á 32. mínútu. Kwame Quee tók spyrnuna og boltinn barst í gegnum alla þvöguna í vítateig Breiðabliks á fjærstöngina þar sem Gonzalo Zamorano skoraði með innanfótarskoti af stuttu færi. Ólafsvíkingar komnir í 1-0 eftir fyrstu marktilraun sína í leiknum. Heimamenn virkuðu slegnir og á meðan lifnaði yfir leik Víkings. Gonzalo fékk annað ágætis tækifæri skömmu eftir markið en skot hans var varið. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Dýrkeypt mistök

Lengi framan af síðari hálfleik spilaðist leikurinn eins og í þeim fyrri. Breiðablik hélt boltanum en komst lítt áleiðis gegn þéttum varnarleik Víkings. Blilkar juku sóknarþungann eftir því sem leið á, enda allt undir hjá þeim. Þegar hálftími var eftir dró verulega til tíðinda. Thomas Mikkelsen átti skot í samskeytin og út. Varnarmönnum Víkings tókst ekki að bægja hættunni frá, boltinn barst að lokum til Arons Bjarnasonar sem átti bylmingsskot sem small í þverslánni. Ólafsvíkingar sluppu þar heldur betur með skrekkinn og héldu forystunni en þó ekki lengi. Á 67. mínútu vann Thomas Mikkelsen boltann af Emmanuel Keke í vörninni, geystist með hann í átt að marki og kláraði vel einn á móti markmanni. Staðan orðin 1-1.

Eftir jöfnunarmarkið héldu Blikar áfram að sækja en Ólafsvíkingar vörðust vel allt til loka venjulegs leiktíma. Því varð að grípa til framlengingar.

 

Dramatíkin allsráðandi

Leikurinn var heldur opnari í framlengingunni en í venjulegum leiktíma og hart barist inni á vellinum. Blikar voru meira með boltann en aftur reyndist fast leikatriði þeim dýrkeypt. Á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingar fékk Víkingur aukaspyrnu. Kwame sendi boltann inn í teiginn og Davíð Kristján Ólafsson, leikmaður Breiðabliks, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar hann reyndi að skalla boltann frá. Staðan 2-1 fyrir Víking og aðeins 15 mínútur eftir.

Blikar lögðu mikið kapp á að jafna í síðari hálfleik framlengingarinnar, lágu í sókn en náðu ekki að skapa sér nein dauðafæri. Tíminn virtist vera að hlaupa frá þeim þegar þeim tókst að jafna með ótrúlega dramatískum hætti á lokasekúndum framlengingarinnar. Ingibergur Kort Sigurðsson hafði þá sloppið einn í gegnum vörn Breiðabliks en Gunnleifur Gunnleifsson varði frá honum. Heimamenn geystust upp í sókn sem endaði með því að boltinn var lagður hægra megin í teiginn fyrir Brynjólf Darra Willumsson sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Staðan 2-2 að loknum framlengdum leik og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar vörðu báðir markverðirnir eina spyrnu hvor. Nacho Heras þrumaði í þverslána og Damir Muminovic tryggði síðan Breiðabliki farseðilinn í úrslitaleikinn með marki úr síðustu spyrnunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira