Lilja sækist eftir formennsku í SUF

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir í Bakkakoti í Borgarfirði hefur tilkynnt að hún sækist eftir formennsku í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna. Sambandsþing fer fram dagana 31. ágúst til 1. september. Lilja er 22 ára og er annar varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún er starfsmaður Grunnskóla Borgarfjarðar og er að hefja fjarnám í grunnskólakennarafræðum.

„Ég hef notið þess að taka þátt í starfinu síðustu ár og ég vil gera mitt besta til að sjá til þess að SUF haldi áfram sínu góða starfi og fái tækifæri til þess að blómstra. SUF er mikilvægt í grasrót Framsóknar og því er nauðsynlegt að samtökin séu virk og ýti á eftir þingmönnum og ráðherrum. Það sem liggur mér helst á hjarta er jafnrétti til náms, umhverfismál og geðheilbrigðismál. Þegar litið er til búsetu fólks í námi er mörgu ábótavant og tel ég að ýta þurfi á eftir leiðum sem bæta aðstæður til náms eins og aukið fjarnám í Háskóla Íslands og heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema sem koma af landsbyggðinni. Ísland gerir margt gott í umhverfismálum en getur gert margt betur. Markvisst þarf að minnka plastnotkun á landinu og stuðla að endurvinnslu þess ásamt því að styðja við rafbílavæðingu á landsvísu. Styrking heilbrigðiskerfisins er nauðsynleg. Sérstaklega þegar litið er til þróunar geðheilbrigðismála. Fíkn og lyfjamisnotkun hjá ungu fólki á Íslandi er komin í mjög slæman farveg. Vitundarvakning hefur orðið í þessum málum og nýta þarf þennan kraft til mikilla umbóta til að koma í veg fyrir að illa fari.“

Þá segir hún að unga fólkið sé framtíðin og mega stjórnmálamenn ekki gleyma því. „Því er mikilvægt að við látum í okkur heyra og minnum á að við erum ekki einhver „aukahlutur“ heldur er verið að byggja samfélagið upp og einn daginn munum við taka við því og færa keflið áfram. Samfélagið er í stöðugri þróun og við þurfum að gæta þess að það sé þróun í rétta átt,“ segir Lilja Rannveig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira