Leikmenn Víkings fagna marki. Ljósm. af.

Jafnt á Ólafsvíkurvelli

Víkingur Ó. mátti sætta sig við jafntefli við Selfoss, 1-1, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Leikmenn Víkings voru heldur sprækari framan af leik án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Það var því verðskuldað frekar en hitt þegar Nacho Heras kom Ólafsvíkingum yfir á 32. mínútu með þrumuskalla eftir hornspyrnu frá Kwame Quee. Heimamenn héldu áfram að sækja eftir markið og voru mun sterkara lið vallarins. Skömmu fyrir hálfleik vildu þeir meina að Gonzalo Zamorano hefði verið hrint í teignum og vildu fá víti, en dómarinn var ekki á þeim buxunum. Staðan í hléinu var því 1-0 fyrir Víkingi.

Gestirnir frá Selfossi voru ákveðnari í upphafi síðari hálfleiks en náðu ekki að ógna marki að ráði. Það var ekki mikið um færi í síðari hálfleik og það var lítið í gangi þegar Selfyssingar jöfnuðu. Ingi Rafn Ingibergsson tók aukaspyrnu og Emir Dokara, fyrirliði Víkings, varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net.

Ólafsvíkingar færðu sig framar á völlinn eftir jöfnunarmarkið og leikurinn opnaðist við það. Víkingar voru nálægt því að stela sigrinum á 85. mínútu. Þá áttu þeir flotta sókn þar sem Kwame fann Ástbjörn úti hægra megin. Hann sendi boltann strax fyrir á Gonzalo en hann náði ekki að koma boltanum í netið. Heimamenn settu mikla pressu á gestina síðustu mínúturnar en höfðu ekki erindi sem erfiði. Lokatölur urðu 1-1.

Víkingur situr í 3. sæti deildarinnar með 33 stig, jafn mörg og HK í sætinu fyrir ofan en hefur leikið einum leik fleira. Næsti deildarleikur Víkings er gegn Þrótti R. á Ólafsvíkurvelli mánudaginn 20. ágúst næstkomandi. Í millitíðinni leikur liðið hins vegar gegn Breiðabliki á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Sá leikur fer fram á fimmtudaginn, 16. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira