Leikmenn Víkings Ó. fagna öðru marka Kwame Quee í leiknum gegn Haukum. Ljósm. af.

Jafntefli á Ólafsvíkurvelli

Víkingur Ó. og Haukar gerðu 2-2 jafntefli þegar liðin mættust í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram í hægviðri í Ólafsvík í gærkvöldi.

Heimamenn voru sterkari framan af leiknum og sóttu stíft án þess að ná að ógna marki gestanna verulega. Það var því algerlega gegn gagni leiksins þegar Haukar komust yfir á 28. mínútu. Varnarmönnum Víkings gekk ekki að hreinsa boltann frá eftir fyrirgjöf. Boltinn datt fyrir Elton Barros sem renndi honum auðveldlega í netið. Markið sló heimamenn algerlega út af laginu. Hvorugu liðinu tókst að ógna marki að ráði það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og staðan 1-0 fyrir Hauka í hléinu.

Ólafsvíkingar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og settu strax pressu á Hauka. Litlu munaði að þeir jöfnuðu metin á 58. mínútu þegar Guyon Philips átti skot í þverslá. Það var síðan á 72. mínútu sem Kwame Quee jafnaði fyrir Víking eftir laglega sókn. Víkingar efldust við þetta og sóttu stíft. Á 81. komust þeir yfir þegar Kwame skoraði öðru sinni. Boltinn var sendur fram á Gonzalo Zamorano sem stakk varnarmenn Hauka af og renndi boltanum síðan á Kwame sem skoraði auðveldlega.

Allt virtist stefna í 2-1 sigur Víkings þar til rétt fyrir leikslok að Haukar fengu hornspyrnu. Boltinn var sendur fyrir markið. Indriði Áki Þorláksson reis hæst í teignum, skallaði boltann í netið og jafnaði metin. Þannig urðu lokatölur leiksins, 2-2.

Víkingur Ó. missti þannig af dýrmætum stigum í toppbaráttu deildarinnar. Liðið hefur 31 stig í öðru sæti, stigi á eftir toppliði HK og stigi á undan ÍA sem er í 3. sæti, en bæði lið eiga leik til góða á Ólafsvíkurliðið. Næst leikur Víkingur á mánudaginn næstkomandi, 13. ágúst, þegar liðið tekur á móti Selfossi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir