Grímshúsið. Samsett mynd/ Skessuhorn

Ginframleiðandi vill leigja Grímshúsið

Svo virðist sem hinu sögufræga Grímshúsi við Borgarneshöfn verði brátt fengið nýtt hlutverk. Breski ginframleiðandinn Martins Millers Gin vill gera langtíma leigusamning um húsið, ljúka endurgerð þess og stækka. Það var eins og kunnugt er hópur Borgnesinga sem beitti sér fyrir endurgerð hússins fyrir um átta árum og stofnaði í þeim tilgangi Grímshússfélagið sem aflaði fjár og hóf framkvæmdir. Hugmyndir ginframleiðandans eru samkvæmt heimildum Skessuhorns að reka í húsinu veitingasölu og móttöku ferðafólks. Drög að leigusamningi um húsið hafa nú verið lögð fram í byggðarráði Borgarbyggðar. Á fundi byggðarráðs síðastliðinn þriðjudag fól ráðið sveitarstjóra að annast framhald málsins hvað varðar samningagerð við Martins Millers Gin. „Byggðarráð lagði áherslu á að vanda þyrfti ákvæði um leigutíma, leigukjör og hverjar yrðu skyldur sveitarfélagsins varðandi viðhald og umhverfi hússins á leigutímanum. Byggðarráð lagði einnig áherslu á að það væri Borgarbyggð sem færi með samningsumboð við MMG í þeim samningum sem framundan eru,“ segir í bókun byggðarráðs.

 

Saga hússins

Útgerðarfélagið Grímur hf. í Borgarnesi var stofnað sem samvinnufélag 1933 til að annast útgerð og fiskvinnslu. Lét félagið byggja húsið árið 1942, þegar hagur þess hafði vænkast, bæði vegna saltfiskútflutnings en ekki síst vegna mikils síldarafla sem MS Eldborg bar að landi, einkum á Siglufirði. Eldborgin var um tíma á síldarárunum aflahæsta síldveiðiskip landsmanna og vakti það furðu norðanmanna að „sveitastrákar úr Borgarnesi,“ eins og það var orðað, skyldu ná þeim árangri. Grímshúsið var reist um þarfir útgerðarfélagsins, niðri voru geymslur fyrir veiðarfæri og aðföng og skrifstofuaðstaða á efri hæð. Til gamans má einnig geta þess að húsið hýsti hreppsskrifstofu Borgarneshrepps um tíma á fimmta áratugnum.

 

Vildi segja sögu útgerðar

Það var Snorri Þorsteinsson fyrrum fræðslustjóri Vesturlands sem árið 2010 vakti máls á því að hefja skyldi endurgerð Grímshússins, en húsið var þá í algjörri niðurnýðslu og raunar rústir einar. Ritaði hann grein í Skessuhorn og varpaði hugmyndinni fram með formlegum hætti. Sveitarfélagið Borgarbyggð hafði þá nýlega orðið eigandi Grímshússins og voru hugmyndir um að láta rífa það. Snorri vakti máls á því að raunar sætti það furðu að útgerðarsaga Borgnesinga skyldi ekki hafa verið skráð og haldið á lofti til fróðleiks fyrir uppvaxandi kynslóðir um starf og lífsbaráttu genginna íbúa þorpsins. Lagði hann því til að húsið fengi það hlutverk að hýsa útgerðarsöguna í Borgarnesi. Í kjölfar greinar Snorra stofnaði hópur fólks Grímshússfélagið. Hefur félagið safnað á þriðja tug milljóna króna og þeim peningum hefur verið varið til að gera húsið upp að utan og er það nú staðarprýði í Brákarey. Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur samkvæmt bókhaldi Grímshússfélagsins greitt tæpan tíunda hluta þess kostnaðar sem lagður hefur verið í endurgerð hússins.

Sigvaldi Arason er nú formaður Grímshússfélagsins. Aðspurður kveðst hann í samtali við Skessuhorn fagna því að húsið fái loks hlutverk, þrátt fyrir að þar verði útgerðarsagan ekki skráð með öðrum hætti en þeim að félaginu tókst að koma í veg fyrir að húsið yrði rifið. Hann segir samskipti og samningagerð við breska ginframleiðandann ekki í höndum Grímshússfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir