Hér er verið að fjarlægja bifreiðina af vettvangi. Ljósm. bhs.

Keyrði fullur á ferðamenn í Borgarnesi

Á tíunda tímanum að morgni frídags verslunarmanna handtóku lögreglumenn í Borgarnesi ölvaðan ökumann. Maðurinn hafði áður misst stjórn á lítilli jeppabifreið á Brúartorgi, ekið inn á bílastæði og á tvo erlenda ferðamenn. För mannsins stöðvaðist loks þegar hann ók á ljósastaur. Við áreksturinn steig hann út úr bílnum og gekk burt af vettvangi en vegfarendur veittu honum eftirför. Var hann síðan handtekinn skammt frá vettvangi.

Ferðamönnunum var komið undir læknishendur á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. Þurfti að sauma annan þeirra en að svo búnu gátu þeir haldið ferðalagi sínu áfram. Ökumaðurinn er ómeiddur en bifreið hans óökufær og var fjarlægð með dráttarbíl. Slökkvilið var seinna kallað út til að hreinsa upp olíu sem lekið hafði úr bílnum eftir að hann staðnæmdist á ljósastaurnum.

Sigurður Jónasson hjá Lögreglunni á Vesturlandi sagði í samtali við fréttastofu RÚV að mikil mildi hafi verið að ekki fór verr, enda margt fólk á gangi á svæðinu þegar slysið varð. Haft er eftir Sigurði að fólki hafi verið mjög brugðið. Hann viti ekki hversu tæpt hafi staðið með aðra vegfarendur en mörg vitni hafi verið að atvikinu og sum þeirra hafi hlúð að þeim slösuðu á vettvangi. Ekki er vitað hversu langt maðurinn hafði ekið áður en slysið varð. Að sögn Sigurðar er ökumaðurinn á miðjum aldri. Hann hafi verið einn í bílnum og augljóslega mjög ölvaður. Ekki var hægt að yfirheyra hann í fyrstu sökum ölvunar. Honum var engu að síður sleppt úr haldi þegar málsatvik þóttu liggja ljós fyrir og kallaður til skýrslutöku eftir að runnið hafði af honum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir