Mikil stemning er alltaf á Dönskum dögum í Stykkishólmi. Ljósm. aðsend.

Danskir dagar í Stykkishólmi framundan

Bæjarhátíðin Danskir dagar fer fram í Stykkishólmi dagana 17.-19. ágúst næstkomandi. Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1994 og og er því ein elsta bæjarhátíð landsins. Undirbúningur hefur gengið vel að sögn Hjördísar Pálsdóttur safnstjóra Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla. En undirbúningur er í höndum starfsmanna safnanna ásamt fleirum. „Dagskráin hefst með danskri krakkasmiðju á bókasafninu á þriðjudeginum. Þar ætlum við að leggja áherslu á danskar bókmenntir fyrir börnin“, segir Hjördís. Í boði verður ýmis önnur afþreying fyrir börn á öllum aldri, má þar nefna, dorgveiðikeppni, þrautaleikur og Húlladúllan. Dagskráin verður með dönsku ívafi alla hátíðina, meðal annars verða sýndar danskar bíómyndir í Eldfjallasafninu, grillað verður Snobrød í Nýrækt og tónleikar í Vatnasafninu svo dæmi séu tekin.
Á föstudagskvöldinu verður brekkusöngur og að honum loknum verður ball með hljómsveitinni Meginstreymi í reiðhöllinni. „Dagskráin verður fjölbreytt á laugardeginum og má þar nefna markaðssvæðið, boðið verður upp á æbleskiver og brjóstsykursgerð í Norska húsinu og hægt verður að fá leiðsögn um Eldfjallasafnið. Um kvöldið verður bryggjuball og flugeldasýning. Í lok kvöldsins verður stórdansleikur í íþróttamiðstöðinni þar sem hljómsveitin Buff mun leika fyrir dansi,“ segir Hjördís.
Á sunnudeginum er upplagt fyrir gesti hátíðarinnar að fara í skipulagða gönguferð upp Drápuhlíðafjall til að hressa sig við eftir dansleikinn. Styrktarfélagið Kraftur mun vera í Grunnskólanum. Þar verður hægt að perla armbönd með áletruninni „Lífið er núna“. Félagið hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Líkar þetta

Fleiri fréttir