Hópur sjálfboðaliða við störf á Akranesi

Undanfarnar hefur hópur sjálfboðaliða á vegum Veraldavina unnið á Akranesi. Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Samtökin voru stofnuð í júní 2001 og hafa frá upphafi haft umhverfismál í öndvegi. Markmið samtakanna er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og betri umgengni manna við umhverfi sitt. Lögð er rík áhersla á alþjóðlegt samstarf og skipulagningu á umhverfis- og menningartengdum verkefnum í samvinnu við sveitarfélög og frjáls félagasamtök og eru Veraldarvinir brautryðjendur í skipulagningu slíkra verkefna hér á Íslandi. Veraldarvinir hafa m.a. átt gott samstarf við verkalýðsfélög á landinu og hafa það að meginmarkmiði að stíga ekki inn í þau störf sem annars væru unnin af launuðum starfsmönnum. Frá árinu 2003 hafa Veraldavinir tekið á móti 14.718 erlendum sjálfboðaliðum sem hafa skilað 794 ársverkum til heilla íslenskri náttúru og menningu og fær Akraneskaupstaður nú að njóta góðs af. Á meðal verka sem sjálfboðaliðarnir ynntu af hendi var hreinsun friðlandsins í Innstavogsnesi og hreinsun með allri strandlínu bæjarins, þar sem hirt var upp hátt í tonn af rusli. Einnig aðstoðuðu þau Skógræktarfélag Akraness við ýmis verk, eins og tiltekt og gróðursetningu.

,,Þetta er fólk á öllum aldri sem kemur víðs vegar að. Þau stóðu sig gríðarlega vel og hafa þeir sem komið hafa að þessu verið gríðarlega ánægðir með þeirra störf. Þau fengu nú ekki besta veðrið hér í sumar en voru alltaf gríðarlega jákvæð og metnaðarfull í þessu starfi. Þetta er allt fólk sem er hérna í þeim tilgangi að kynnast landi, þjóð og að fá að vera úti í íslenskri náttúru er bara bónus,“ segir Ása Katrín Bjarnadóttir, verkstjóri á skipulags- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar. Sjálfboðaliðarnir hafa nú kvatt Akranes og sumir flogið aftur heim á leið en aðrir hafið störf annars staðar á landinu. Til að mynda fór einn hópur inn í Hvalfjörð að vinna að endurnýjun göngustíga við Glym.

Líkar þetta

Fleiri fréttir