Álftarunginn Gassi ásamt Þóru Árnadóttur, bónda á Brennistöðum í Flókadal. Ljósm. arg.

Álftarunginn Gassi ræður ríkjum á Brennistöðum

Sólin lýsti upp bæjarstæðið á Brennistöðum í Flókadal í uppsveitum Borgarfjarðar þegar blaðamann Skessuhorns bar þar að garði skömmu fyrir helgi. Ástæða heimsóknarinnar var að ræða við Þóru Árnadóttur bónda um álftarunga sem hún elur nú upp ásamt móður sinni, Vigdísi Sigvaldadóttur, eða Viggu eins og hún er kölluð í daglegu tali. Þegar blaðamaður keyrði upp að bænum stóð Þóra á bæjarhlaðinu nýkomin af túninu en þrátt fyrir að vera í óðaönn að heyja meðan var þurrkur gaf hún sér tíma til að spjalla smá. Álftarunginn, sem hefur fengið nafnið Gassi, lá í grasinu við bílastæðið og sólaði sig. Hann tók vel í að fá smá klapp og klór frá mönnum en hundarnir á bænum máttu ekki koma of nálægt, þá siðaði unginn þá til og augljóst var hver ræður ríkjum þar á bæ þó ungur sé.

Gassi aðal gæludýrið
„Þetta er nú ekkert nema fikt í okkur,“ svarar Þóra aðspurð hvers vegna þær mæðgur hafi tekið að sér þennan álftarunga. „Okkur þykir þetta gaman og þurfum alltaf að hafa nóg af dýrum í kringum okkur. Við höfum áður alið upp álftarunga og stundum verið með refayrðlinga og grísi þess á milli. Þetta er svo skemmtilegt fyrir ferðamennina, þá hafa þeir eitthvað til að skoða hér í stað þess að koma bara rétt til að gista,“ bætir Þóra við en á Brennistöðum er einnig ferðaþjónusta. Önnur dýr á bænum eru geitur, hundar, hænur, hestar og kindur en Þóra segir álftarungann vera aðal gæludýrið. „Gassi er mikið gæludýr og þykir mjög gott þegar það er eitthvað verið að snúast í kringum hann,“ segir Þóra brosandi og tekur hann í fangið og fer með inn. Þar lætur hún vatn renna í bala sem hún setur Gassa í. „Þetta þykir honum mjög notalegt, að fá að baða sig aðeins. Þó kann hann ekki alveg að smyrja sig og verður því alltaf rennandi blautur.“

Nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir