Frá undirritun samningsins. F.v. Heimir Fannar Gunnlaugsson, stjórnarmaður KFÍA, Vincent Weijl og Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. Ljósm. KFÍA.

Hollenskur miðjumaður til ÍA

Knattspyrnufélag ÍA hefur samið við hollenska leikmaninn Vincent Weijl um að leika með liðinu í 1. deild karla út keppnistímabilið.

Vincent er 27 ára, reynslumikill miðjumaður, uppalinn hjá AZ Alkmaar og var á samningi hjá Liverpool á sínum tíma. Hann hefur á sínum atvinnumannaferli leikið með liðum í Danmörku, Hollandi, Spáni og Malasínu. Hann jafnframt að baki leiki með U19 og U20 ára landsliðum Hollands.

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari mfl karla hjá ÍA, er mjög ánægður með komu leikmannsins til félagsins: „Ég er mjög sáttur með að fá reynslumikinn miðjumann eins og Vincent Weijl til liðs við ÍA. Þetta er fjölhæfur leikmaður sem hefur gert góða hluti hjá mörgum liðum og slík reynsla er mikilvæg fyrir liðið okkar. Við höfum þannig náð að styrkja liðið umtalsvert í félagaskiptaglugganum og við munum nú leggja okkur alla fram um að taka toppsætið í Inkasso-deildinni,“ segir Jóhannes Karl í tilkynningu á vef KFÍA. Þar er jafnframt haft eftir Vincent að hann sé spenntur að koma og spila með ÍA. Hann hafi spilað með mörgum liðum víða um hemi og það væri frábært tækifæri að fá að spila fótbolta á Íslandi. Þegar honum hafi boðist að fara til ÍA hefði hann ekki verið í neinum vafa. Hann segist einnig vona að reynsla hans og þekking muni nýtast félaginu og nýju liðsfélögum hans eins vel og mögulegt sé.

Líkar þetta

Fleiri fréttir