Skagamenn máttu sætta sig við jafntefli gegn Leikni. Ljósm/ KFÍA.

Markalaust jafntefli hjá karlaliði ÍA

Karlalið meistaraflokks ÍA í fótbolta gerði markalaust jafntefli í fyrsta leik seinni umferðar Inkassodeildar er liðið spilaði við Leikni í Breiðholtinu í gær. Bæði lið fóru stigalaus frá síðustu umferð og því ljóst að mikill baráttuleikur væri framundan.

Hvert stig er Skagamönnum mikilvægt í toppbaráttunni og því kom ekki á óvart að þeir gulu byrjuðu leikinn af miklum krafti sem pressuðu heimamenn hátt upp völlinn.  Það má svo segja að hættulegasta færið hafi komið á tíundu mínútu. Þá fékk Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson frían skalla inn í markteig heimamanna eftir glæsilega sendingu frá Bjarka Steini Bjarkasyni sem markvörður Leiknis, Eyjólfur Tómasson, náði að verja á einhvern ævintýralegan hátt. Eftir þetta dauðafæri hjá ÍA komust Leiknismenn ögn betur í takt við leikinn en engu að síður fóru liðin markalaus í hálfleik.

Meira jafnræði var með liðunum í þeim síðari en þó voru færin frá Skagamönnum vígalegri. Aftur á móti var Eyjólfur, markvörður Leiknis, að gera gestunum erfitt fyrir en hann sýndi frábær tilþrif í marki heimamanna. Leikurinn fjaraði svo út og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Með þessum úrslitum dettur ÍA í þriðja sæti deildarinnar en Leiknir heldur sjöunda sætinu. Næsti leikur Skagamanna fer fram á Akranesi næstkomandi föstudag þegar þeir taka á móti Þór Akureyri klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Af með nagladekkin!

Lögreglan á Vesturlandi er ekki farin að kæra ökumenn fyrir að vera með nagladekk undir bifreiðum sínum. Ekki er byrjað... Lesa meira