Hætta rækjuvinnslu í Grundarfirði og segja upp starfsfólki

FISK Seafood ehf. í Grundarfirði hefur ákveðið að segja upp 19 starfsmönnum við rækjuvinnslu frá og með næstu mánaðamótum. Tveimur að auki er boðin vinna áfram við að taka niður tæki og undirbúa sölu þeirra. Var starfsmönnum kynnt þessi ákvörðun á fundi í gær. Í tilkynningu frá FISK Seafood segir að veiðar og vinnsla rækju hafi átt erfitt uppdráttar hérlendis á undanförnum árum og sé ákvörðunin tekin í ljósi langvarandi tapreksturs í Grundarfirði „sem ekki virðist gerlegt að vinda ofan af við núverandi aðstæður,“ eins og segir í tilkynningunni. FISK Seafood kveðst harma þessar málalyktir en vekur athygli á að rekstrarumhverfi veiða og vinnslu rækju á Íslandi hefur breyst verulega á undanförnum árum með óhjákvæmilegum samdráttaráhrifum.

 

Engin önnur leið sökum taprekstrar

„Það er sárt að horfast í augu við þennan veruleika. Rækjuveiðar við Íslandsstrendur eru orðnar innan við 10% af því sem var þegar best lét og hráefnið, sem stöðugt hækkar í verði, kemur nú orðið að langmestu leyti erlendis frá. Gengi íslensku krónunnar, stóraukinn launakostnaður og aðrar innlendar kostnaðarhækkanir ráða einnig miklu um versnandi afkomu og við núverandi aðstæður er leiðin út úr vandanum því miður ekki einungis vandfundin heldur væntanlega ófær,“ segir Friðbjörn Ásbjörnsson aðstoðarframkvæmdastjóri FISK Seafood í fréttatilkynningu.

 

Kalla eftir mótvægisaðgerðum

Lok rækjuvinnslu í Grundarfirði er reiðarslag fyrir byggðarlagið þar sem 834 búa. Nærri lætur að tuttugu starfsmenn jafngildi um 5% af vinnuafli í bæjarfélaginu. Bæjarráð Grundarfjarðar lítur uppsagnirnar alvarlegum augum og hefði kosið að fyrirtækið hefði haft samráð við bæjaryfirvöld þannig að mögulega hefði mátt undirbúa mótvæðisaðgerðir. „Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir yfir miklum áhyggjum af lokun rækjuvinnslu FISK Seafood á staðnum, þar sem 21 starfsmanni var sagt upp. Rekja má rætur FISK Seafood í Grundarfirði frá kaupum þess á Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar fyrir rúmum 20 árum og síðar útgerð Farsæls SH-30 og nú síðast Soffaníasi Cecilssyni ehf. Ljóst er að þessi uppsögn er mikið högg fyrir atvinnulíf bæjarins. FISK Seafood er einn stærsti atvinnurekandi og fasteignaeigandi bæjarins og ber því mikla samfélagslega ábyrgð í Grundarfirði,“ segir í bókun bæjarráðs.

Þá lýsir bæjarráð yfir vilja til góðs samstarfs við fyrirtækið og kallar eftir mótvægisaðgerðum af hálfu þess til að lágmarka skaða samfélagsins. „Bæjarráð óskar jafnframt eftir öðrum fundi með framkvæmdastjóra og forsvarsmönnum fyrirtækisins, þar sem rætt verði mögulegt samstarf til framtíðar.”

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Af með nagladekkin!

Lögreglan á Vesturlandi er ekki farin að kæra ökumenn fyrir að vera með nagladekk undir bifreiðum sínum. Ekki er byrjað... Lesa meira