Vel var mætt á fundinn í Lyngbrekku.

Íbúar mættu á rýnifund um áhrif berghlaupsins í Hítardal

Vel var mætt á íbúafund sem sveitarfélagið Borgarbyggð boðaði til í félagsheimilinu Lyngbrekku fyrr í kvöld. Um upplýsinga- og rýnifund var að ræða vegna náttúruhamfaranna í Hítardal að morgni laugardags. Til fundarins voru meðal annars boðaðir fulltrúar lögreglunnar og almannavarna, Landsbjargar, Veðurstofunnar, Landgræðslunnar, Veiðimálastofnunar, Bændasamtakanna og Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri stýrði fundi og sagði í upphafi frá hvað farið hefði fram síðan Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal upplýsti hann á laugardagsmorgun um berghlaupið. Sagði hann berghlaupið eitt það stærsta sem runnið hefði á seinni tímum. Berghlaup í Öskju 2014 var um 20 milljón rúmmetrar, en þetta í Hítardal er lauslega áætlað 10-20 milljón rúmmetrar, féll úr Fagraskógarfjalli, yfir Hítará og breiðir úr sér hálfan annan kílómetra á breidd og lengd, eða um 180 hektara lands. Sagði Gunnlaugur að fagfólk hafi verið kallað á svæðið til að leggja mat á afleiðingar þess í bráð og lengd. Fundurinn var hugsaður til að svara fjölmörgum spurningum sem kvikna eðli málsins samkvæmt þegar svona atburðir verða. Töluverð óvissa ríkir um veiði og aðstæður við hina fengsæla á, Hítará. Vatn úr Hítarvatni hefur nú brotið sér nýja leið, fellur í farveg Tálma og fleiri lækjarfarvegi en sameinast Hítará langleiðina niður við þjóðveg. Óvissa ríkir auk þess um afréttarmál, hvenær öruggt er að hleypa umferð fólks nálægt skriðunni og fjölmörg fleiri atriði. Fram kom að mildi þykir að ekki var fólk á svæðinu þegar skriðan féll. Einungis sólarhring síðar hefði átt að opna fyrir veiði á efra svæði árinnar. Þá höfðu grenjaskyttur verið á ferð kvöldið áður. Ekki er vitað hvort og þá margt sauðfé var á svæðinu sem berghlaupið gekk yfir. Það mun líklega aldrei upplýsast.

Í upphafi fundar sýndi Gunnlaugur ljósmynd sem hann tók af Fagraskógarfjalli í janúar síðastliðnum. Þar má sjá að sá hluti fjallshlíðarinnar sem nú skreið fram hefur einhverju sinni skriðið örlítið. Einnig voru sýndar drónamyndir sem Jón Guðbrandsson bóndi á Staðarhrauni tók af aðstæðum á laugardag og svo aftur á sunnudag þegar áin hafði runnið úr lóninu sem myndaðist við stífluna fyrsta daginn. Fram kom hugmynd um að það lón fengi nafnið Vallavatn, myndast það á Hítarárvöllum. Jón sagði hafa látið drónann lenda á hól á skriðunni og hafi hann verið 30 metra hár sem sýnir vel umfangið.

 

Mjög skriðurunnið fjall

Magni Hreinn Jónsson sérfræðingur hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar ávarpaði næst fundinn og sagði frá því að starfsfólk Veðurstofunnar hefði þegar mætt á svæðið til skoðunar og mælinga. Sagði hann berghlaupið líklega stærsta eða næststærsta sinnar tegundar frá upphafi Íslandsbyggðar, líklega 10 til 20 milljónir rúmmetra. Sagði hann sem vísindamaður um merkilega skriðu að ræða, þykkt hennar við jaðra er 10 metrar og 20-30 metrar innar í henni. Áður hefur orðið framhlaup í fjallinu á þessum stað, líklega fyrir þúsundum ára og orsakaðist berghlaupið nú af framhlaupi í fjallinu og líklega einnig óvenjulega mikilli úrkomu síðustu þrjá mánuði, sem mælst hefur sú mesta síðan 1955. Sagði hann miklu minni massa eftir í fjallinu og því takmörkuð hætta fyrir fólk, nema beinlínis væri gengið upp í skriðusárinu. „Nú er farin í gang vinna við að meta fyrstu mæligögnin, bera þau saman við loftmyndir og öll þau gögn sem Veðurstofan getur aflað,“ sagði Magni og bætti því við að Fagraskógarfjall væri mjög skriðurunnið fjall. „Áin mun finna sér leið og hugsanlega eiga eftir að breytast mjög í tímans rás.“

 

Áin rýrnar um fimmtung

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun gerði mönnum grein fyrir mögulegum áhrifum þess að Hítará er nú þornuð upp á löngum kafla. Sagði hann lán að á síðasta ári var gert mat á búsvæði lax í ánni og hjálpaði það mjög við að meta áhrif berghlaupsins nú. „Hítará er gjöful og góð veiðiá, lax er ríkjandi en einnig bleikja. Að meðaltali hafa veiðst um 750 laxar á ári og því eru hlunnindi landeigenda að skerðast töluvert. Menn hrökkva því eðlilega við þegar svona atburður verður,“ sagði Sigurður Már.

Fram kom hjá honum að Hítará er 32 kílómetra löng frá ósi og upp í upptök árinnar í Hítarvatni. Auk þess bætast margir hliðarlækir og ársprænur í ána á leið hennar til sjávar, en um þriðjungur heildar vatnsmagnsins kemur úr hliðaránum. „Nú eru tíu kílómetrar af Hítará án vatns, eða um 30% af vatni árinnar sjálfrar, en um 20% af vatnasviði hennar að meðtöldum hliðaránum hefur tapast. Því má reikna með að um fimmti hluti heildar framleiðslugetu árinnar sé ónýtur. Áin mun hins vegar finna sér farveg á nýjum stöðum, í Tálma og öðrum hliðarám, en hugsanlega mun hluti árinnar renna undir hrauninu áður en hún sameinast Tálma.“ Sigurður Már sagði að líklega myndu menn lítið finna fyrir minnkandi laxgengd þetta sumar og það næsta, en eftir það mætti búast við minni fiski, enda óvissan mest um hrygningar- og uppeldissvæði laxins. Sagði hann átta veiðistaði horfna neðan við Kattarfoss og líklega eina tíu ofan hans, eða alls um 15% allra veiðistaða í Hítará. Benti hann á að Tálmi hafi verið lindá en nú bætist vatn Hítarár í hana og með tíð og tíma breytist botngerð árinnar og jafnvel bæti hann þar sem grófara set bætist við í flóru árbotnsins. Sigurður Már dró þó ekki fjöður yfir þá staðreynd að laxagengd gæti minnkað í Hítará um 20%. „Slíkt hefur áhrif á hlunnindi nokkurra jarða sem eiga land að ánni. Það þarf því að halda vöku sinni og koma með mótvægisaðgerðir. Þar þarf veiðifélagið og leigutakar árinnar að taka höndum saman. Ég mæli því með að hrygningarstofn árinnar verði bættur, fleiri löxum verði sleppt og gönguseiðasleppingar auknar í einhvern tíma. Taka þarf lax í klak strax í sumar og haust. Það er áríðandi að rækta lífríkið við ána og minnka umhverfisskaða eins og kostur er.“ Benti hann á að aukið rennsli í Tálma gæti haft áhrif á fiskgengd upp Tálmafossa. Nýir veiðistaðir munu hins vegar verða til og jafnvel hægt að manngera aðra. „Áfram verður lax í Hítará en hann mun minnka tímabundið. Hægt er að minnka það högg með ræktun ef brugðist verður skjótt við,“ sagði Sigurður Már að endingu.

 

Vilja að uppgræðslu verði flýtt

Sigurjón Einarsson frá Landgræðslunni ávarpaði fundinn, en hlutverk þeirrar stofnunar er að leiðbeina með aðgerðir sem hægt er að ráðast í til að draga úr frekara tjóni. Skoðað verður landbrot, jarðvegseyðingu og uppgræðsla skriðunnar til að koma í veg fyrir fok. Sagði hann allt óljóst enn með áhrif á ánna og landið sem hún brýtur sér leið um. Efnið í skriðunni sem féll er ómanngengt og benti Sigurjón á að hugsanlega væri hægt að fljúga yfir svæðið og dreifa áburði og fræi. Sandfokshætta væri hins vegar til staðar, „ef styttir upp,“ bætti einn fundargesta við. Guðbrandur bóndi á Staðarhrauni kvaðst óttast landbrot í Tálma, jafnvel áður en til þessara hamfara kom. „Það er stórlega aukin rofhætta,“ sagði hann. Hvatt var til þess að yfirvöld flýttu sáningu og áburðargjöf á svæðinu, en alls er talið að berghlaupið nái yfir 180 hektara lands, eins og áður segir. Veiðimenn sem voru við veiðar í ánni í gær, mánudag, sögðu ána á neðra svæðinu hafa verið mjög grugguga. Allt upp í stórar torfur flytu niður og festust í veiðarfærum. Gert er ráð fyrir að slíkt haldi áfram í einhverja daga meðan áin brýtur sér leið um nýjan farveg.

 

Almannavarnanefnd ekki kölluð til

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Vesturlandi sagði frá því að mat yfirmanna í lögreglu og sveitarstjóra hefði verið um helgina að ekki var ástæða til að kalla nýja almannavarnanefnd saman til fundar. Tjáði hann fundargestum að viku fyrir kosningar hefði ráðherra staðfest sameiningu almannavarnanefnda á Vesturlandi í eina, í stað margra áður. Gert væri ráð fyrir að sveitarstjórar í landshlutanum taki sjálfkrafa sæti í nefndinni og ekki væri búið að ráða þá alla til starfa. Nefndin hefur því ekki komið saman. Í umboði sveitarstjóra Borgarbyggðar hafi hins vegar verið ákveðið strax að halda þennan rýnifund sem fyrst til að halda íbúum sem best upplýstum. Þá gat hann þess að fréttaflutningur af stöðu mála í Hítardal hafi verið góður frá fyrsta degi og það hafi hjálpað yfirvöldum. Meðal annars hafi aðgengi að skriðusvæðinu verið stöðvað á laugardag meðan enn ríkti óvissa um aukin skriðuföll.

 

Ekkert fjarskiptasamband

Jón S Ólason yfirlögregluþjónn sagði í ávarpi sínu að ekki hafi verið talin almannavarnahætta á laugardag eftir að búið var að leggja mat á aðstæður. Hins vegar sagði hann afar bagalegt að ekkert fjarskiptasamband er í dalnum, hvorki farsímasamband né hafi Tetra kerfi lögreglu og viðbragðsaðila virkað. Finnbogi Leifsson í Hítardal sem af og til á síðustu árum hefur bent á þetta ástand, spurði yfirvöldin hvort ekki væri nú kominn tími til aðgerða og komið verði á fjarskiptasambandi á svæðinu? Úlfar Lúðvíksson svaraði því á þann hátt að líklega væri það verðugt fyrsta verkefni nýrrar almannavarnanefndar Vesturlands að ræða það. Jón S Ólason sagði að Landsbjörg hefði veitt aðstoð við lokun vega og þá hafi Landhelgisgæslan flogið með lögreglu yfir svæðið. Gerði hann ráð fyrir því að umferð um vegslóðana að berghlaupinu verði heimiluð innan tíðar, en sett upp aðvörunarskilti. Varaði hann ákveðið við að nokkur reyndi að ganga á skriðuna, enda er hún vart fær og mjög hættuleg yfirferðar því þar geta aur- og moldarpyttir leynst. Þá er enn lítilsháttar hrun úr sárinu í fjallinu og spýjur geti hæglega hlaupið niður snarbratta hlíðina.

Auk þess kom fram á fundinum að jarðskjálftamæla skortir á þetta svæði. Magni Hreinn Jónsson frá Veðurstofunni staðfesti að skriðan hefði komið fram á einum mæli, en nauðsynlegt er að hafa þrjá mæla til að ákvarða staðsetningu og slíkt. Landshlutann skortir því bæði jarðskjálftamæla, ekki síður en fjarskiptasamband.

Gunnlaugi A Júlíussyni sveitarstjóra var í lok fundar þakkað sérstaklega fyrir að bregðast hratt og vel við og undirbúið fund, þegar íbúar létu hann vita um atburði laugardagsmorgunsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir