Fé í Dölum. Ljósm. úr safni: SM.

Segir afurðastöðvar halda bændum í gíslingu

Anna Berglind Halldórsdóttir bóndi á Magnússkógum III í Dölum og formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu skrifar harðorða grein í nýjasta Bændablaðið. Þar gagnrýnir hún harðlega framkomu afurðastöðva í garð bænda og segir þær m.a. halda bændum í gíslingu og koma í veg fyrir nýliðun í greininni. Nýir bændur fái einfaldlega hvergi slátrað. Hún skrifar að lögmálið fyrstur kemur, fyrstur fær, gildi um það pantanakerfi sem viðhaft er, þrátt fyrir að afurðaverð liggi ekki fyrir. „Nú er staðan orðin þannig að bændur eru margir búnir að panta slátrun áður en lömb eru komin úr ánum og jafnvel áður en þau eru komin í ærnar. Þetta gera bændur til að komast örugglega að á þeim tíma sem þeir óska. Þetta fyrirkomulag afurðastöðvanna er að mínu mati mjög skrýtið. Þessi regla að „fyrstur kemur, fyrstur fær“ getur ekki gengið upp. Ef þetta heldur svona áfram, verða bændur jafnvel búnir að panta nokkur ár fram í tímann. Án þess þó að vita hversu mörg lömb þeir koma til með að slátra eða hvort þeir verða yfir höfuð með einhver lömb til að slátra.“

Anna Berglind skrifar að undanfarin ár hafi henni fundist afurðastöðvar landsins halda sauðfjárbændum í gíslingu. „Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinni afurðastöð að bændur vilja fá að sjá verðskrá fyrir afurðir miklu, miklu fyrr en nú er. Í dag mega bændur þakka fyrir að það sé komið verð í september. Réttast væri að verð væri komið í nóvember (þ.e. 10 mánuðum fyrr) áður en menn byrja að hleypa til ánna. Nokkrar afurðastöðvar vilja fá lömb í svokallaða sumarslátrun og því þarf verð að liggja fyrir mjög tímanlega svo hægt sé þá að stíla inn á þá slátrun. Þessi gíslataka afurðastöðvanna er í algeru hámarki um þessar mundir. Sauðfjárbændur eru fastir í viðskiptum við þá afurðastöð sem þeir hafa lagt  inn hjá. Þar með ríkir engin samkeppni á þessum markaði lengur. Afurðastöðvarnar hafa bændurna í vasanum.“

 

Sjá grein Önnu Berglindar í heild sinni hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir