Leikmenn Víkings Ó. fagna marki Alexanders Helga Sigurðarsonar. Ljósm. af.

Sigruðu fyrsta leikinn á nýja gervigrasinu

Víkingur Ó. vann öruggan sigur á Leikni R., 3-0, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gær. Leikurinn var sá fyrsti á nýja gervigrasinu á Ólafsvíkurvelli og fyrsti heimaleikur Víkings í sumar.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og voru sterkari framan af fyrri hálfleik. Smám saman komust gestirnir þó inn í leikinn og voru nálægt því að komast yfir á 30. mínútu. Sólon Breki Leifsson var með gott pláss í vítateignum og ætlaði að lauma boltanum í hornið nær en skot hans fór í stöngina. Skömmu síðar skorðu gestirnir mark sem var dæmt af vegna leikbrots. Á 39. mínútu átti Gonzalo Zamorano þrumuskot sem markvörður gestanna varði og tveimur mínútum síðar var aftur dæmt af mark, en í þetta sinn af Ólafsvíkingum. Eftir smá vandræðagang í teignum kom Ingibergur Kort Sigurðsson boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum. Staðan því markalaus í hálfleik.

Ólafsvíkingar voru öflugir í byrjun síðari hálfleiks og komust yfir á 50. mínútu. Gonzalo tók aukaspyrnu en skaut beint í varnarvegginn. Þaðan féll boltinn fyrir Pape Mamadou Faye sem lét vaða. Skot hans fór beint til Alexanders Helga Sigurðssonar sem stóð einn og óvaldaður í teignum og skilaði boltanum í netið.

Heimamenn voru sterkari eftir markið og fengu nokkur prýðileg færi til að auka forystu sína. Það var hins vegar ekki fyrr en í uppbótartíma að þeim tókst að bæta við. Þá skoraði Kwame Quee eftir góðan samleik við Kristinn Magnús Pétursson upp allan völlinn. Ólafsvíkingar innsigluðu svo sigurinn skömmu síðar þegar Emmanuel Eli Keke skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu. Lokatölur því 3-0 fyrir Víking og sigur í höfn í fyrsta leik á nýja gervigrasinu.

Ólafsvíkingar sitja í fjórða sæti deildarinnar með 13 stig eftir fyrstu sjö leikina. Næst mæta þeir Þór Ak. norðan heiða næstkomandi miðvikudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir