Búið að samþykkja deiliskipulag vegna Vesturlandsvegar

Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hefur nú samþykkt breytt deiliskipulag vegna Vesturlandsvegar og byggir það á tillögu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar og Vegagerðarinnar. Í bókun með samþykkt þess segir að markmið framkvæmda og skipulagsins sé að vegurinn verði endurbættur til að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. „Stefnt er að 2+1 vegi á stærstum hluta deiliskipulagsins og fækkun tenginga við þjóðveginn með gerð hliðarvega,“ segir í fundargerð ráðsins.

Sú staðreynd að deiliskipulag vegna endurbóta á Vesturlandsvegi hefur vantað, hefur tafið að nauðsynlegar framkvæmdir geti hafist á veginum, sem talinn er einn sá hættulegasti á landinu miðað við umferðarþunga. Þar hafa orðið fjölmörg alvarleg slys og á þessu ári tvö banaslys, það síðara í þessari viku þegar einn lést og níu slösuðust í árekstri tveggja bíla skammt frá Enni á Kjalarnesi. Bílarnir komu úr gagnstæðri átt og rákust saman, enda ekkert sem greinir akstursstefnur í sundur. Háværar raddir urðu í kjölfar slyssins í þá veru að meðan akstursstefnur verði ekki aðgreindar sé nauðsynlegt að draga úr umferðarhraða um Vesturlandsveg.

Á þessu ári er fyrirhugað að framkvæma fyrir 200 milljónir á vegarkaflanum frá Mosfellsbæ til Hvalfjarðarganga. Þeir peningar verða settir í nýtt hringtorg við iðnaðarhverfið á Esjumelum. Þá verða 100 milljónir af viðbótarfé ríkisins til lagfæringa á vegum í sumar notaðar til bráðaviðgerða á Vesturlandsvegi, einkum til að malbika í djúp hjólför. Aðrar framkvæmdir hafa ekki verið kynntar en í samgönguáætlun sem til stendur að birta í haust er þess beðið að verulegt fjármagni verði varið í að hefja tvöföldun Vesturlandsvegar. Boltinn er því hjá fjárveitingavaldinu sem ekki getur lengur borið því við að skortur á skipulagi tefji málið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir