Ísól Lilja Róbertsdóttir. Ljósm. tfk.

Hlaut hæstu einkunn frá upphafi skólans

Ísól Lilja Róbertsdóttir lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga á föstudaginn með hæstu einkunn á lokaprófi frá upphafi skólans, eða 9,8. Ísól Lilja segir í samtali við blaðamann að lykillinn að góðum námsárangri sé fyrst og fremst að vanda sig í verkefnavinnu. „Það skiptir máli að gera vel í öllum verkefnum sem maður skilar af sér og til að gera vel er mikilvægt að lesa verkefnalýsingar vel og vera nákvæmur í allri vinnu. Ég hef alveg orðið vör við að það er auðvelt að fá mínus í verkefni bara fyrir að hafa ekki lesið verkefnalýsingu nógu vel. Við búum líka svo vel í Fjölbrautaskóla Snæfellinga að hafa góðan aðgang að kennurum því skólinn er ekki svo stór. Ég nýtti mér það mikið og hikaði ekki við að spyrja kennarana ef ég var í vafa með eitthvað,“ segir hún og bætir því við að skipulag og góð nýting á tíma sé líka stór partur af því að ná svona góðum árangri í námi.

 

Stefnir í lýðháskóla í Danmörku

Samhliða námi hefur Ísól Lilja einnig verið í tónlistarnámi að læra á bæði saxafón og píanó. Hún segir ekki mikinn tíma hafa verið fyrir annað en þannig vilji hún líka hafa það. Nú tekur við vinna í Norska húsinu í Stykkishólmi í sumar en hún á eftir að finna sér vinnu fyrir haustið. „Ég ætla líka að vinna í haust til að safna pening en ég stefni á að fara í lýðháskóla í Danmörku í janúar á næsta ári,“ segir hún. Hvað kemur eftir lýðháskólann segist hún ekki vera búin að ákveða. „Ég stefni á nám við Háskóla Íslands haustið 2019. Ég er ekki alveg ákveðin hvað mig langar að læra, það er svo margt spennandi í boði,“ segir hún og heldur áfram. „Eins og er langar mig mest að læra eðlisfræði með áherslu á stjarnvísindi en það er svona mitt áhugasvið.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir