Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði markið sem skildi liðin að. Ljósm. úr safni/ gbh.

Sanngjarn sigur ÍA í baráttuleik

ÍA sigraði ÍR, 1-0, fyrsta heimaleiknum í 1. deild kvenna í sumar. Leikið var í Akraneshöllinni í gær. Leikurinn átti upphaflega að fara fram á Akranesvelli en var færður undir þak vegna veðurs. Um mikinn baráttuleik var að ræða en heilt yfir voru Skagakonur sterkara liðið og sigurinn verður að teljast verðskuldaður.

Skagakonur voru ákveðnari í upphafi leiks og fengu dauðafæri strax á 3. mínútu. Bergdís Fanney Einarsdóttir fékk boltann ein á móti markverði á markteig eftir langa sendingu frá hægri en skaut yfir markið. ÍR-ingar fengu ágætt fær nokkru síðar sem Tori Ornela varði í marki ÍA. Eftir það datt leikurinn aðeins niður. En skömmu fyrir hléið áttu Skagakonur góðan leikkafla þar sem þær sköpuðu sér nokkur ágætis marktækifæri sem öll fóru þó forgörðum. Staðan var því markalaus í hálfleik.

Skagakonur fengu óskabyrjun í síðari hálfleik. Á 48. mínútu leiksins átti ÍA ágæta sókn sem lauk með fyrirgjöf. Boltinn barst á Bergdísi Fanneyju sem vippaði honum einkar snyrtilega yfir markvörð ÍR-inga.

Gestunum tókst aldrei að ógna marki ÍA af neinni alvöru það sem eftir lifði leiks. Skagakonur fengu aftur á móti sín tækifæri til að beta við, það besta skömmu fyrir leikslok. Unnur Ýr Haraldsdóttir slapp þá ein í gegn hægra megin eftir glæsilega stungusendingu Marenar Leósdóttur. Hún sótti inn í teiginn og sendi hnitmiðaða lága sendingu beint fyrir fætur Heiðrúnar Söru Guðmundsdóttur en skot hennar fór rétt yfir markið. Lokatölur urðu því 1-0.

Eftir sigur í fyrstu tveimur leikjunum hefur ÍA sex stig í þriðja sæti deildarinnar, jafn mörg og Fylkir og Keflavík í sætunum fyrir ofan en þremur stigum meira en Þróttur R. í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur ÍA í deildinni sunnudaginn 27. maí næstkomandi þegar liðið mætir Fjölni á útivelli. Í millitíðinni leikur ÍA hins vegar í Mjólkurbikarnum. Liðið tekur á móti Keflavík í bikarnum annan dag hvítasunnu, mánudaginn 21. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir