Vestramenn með silfurpeningana ásamt þjálfurum sínum. Ljósm. Vestri.

Vestramenn hrepptu silfrið í 10. flokki drengja

Vestramenn, sameiginlegt lið Skallagríms og Vestra, tapaði naumlega fyrir KR í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í 10. flokki drengja. Leikið var um síðustu helgi. Úrslitaleikurinn var hnífjafn og spennandi enda áttust þar við tvö frábær körfuknattleikslið. Úrslit leiksins réðust ekki fyrr en eftir framlengingu og þar höfðu KR-ingar betur með einu stigi, 74-75. Vestramenn urðu því að sætta sig við silfrið en geta engu að síður borið höfuðið hátt og liðið á framtíðina fyrir sér.

Aðstæður liðsins eru einstakar á landsvísu. Fleiri hundruð kílómetrar eru á milli leikmanna sem búa í Borgarfirði, Borgarnesi, Hólmavík, Ísafirði og Suðureyri. Mikið ferðalag leggja liðsmenn því á sig fyrir hverja æfingu og hvern leik. „Þjálfarar liðsins þeir Nebojsa Knezevic og Pálmi Þór Sævarsson eiga mikið hrós skilið fyrir frábært skipulag æfinga en eins og árangurinn ber með sér er ekki að sjá annað en að liðið æfi saman oft í viku. Það er þó ekki raunin en með ótrúlegri þrautsegju og dugnaði hefur foreldrum, þjálfurum og liðsmönnum tekist að æfa saman við hvert tækifæri,“ segir á vef Vestra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir