Frá afhendingu tækisins. F.v. Valdís Heiðarsdóttir deildarstjóri á lyflækningadeild, Stefán Þorvaldsson yfirlæknir og Steinunn Sigurðardóttir formaður Hollvinasamtaka HVE.

Hollvinasamtökin færðu HVE tæki til öndunaraðstoðar

Aðalfundur Vesturlandsvaktarinnar, hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, var nýverið haldinn í fundasal HVE á Akranesi að viðstöddu fjölmenni. Steinunn Sigurðardóttir formaður félagsins færði af þessu tilefni HVE nýjan Ventilator og stand að gjöf. Það var Stefán Þorvaldsson lungnalæknir og yfirlæknir Lyflækningadeildar sem veitti tækinu viðtöku. Tæki þetta kostar 2,6 milljónir króna. Stefán þakkaði fyrir höfðinglega gjöf sem hann sagði að kæmi sjúklingum verulega til góða en jafnframt gerði tæki þetta starfsfólki auðveldara að bæta líðan þeirra sem hafa þörf fyrir aðstoð við öndun. Stefán lýsti því hvernig tækið kæmi sjúklingum til góða og hvað það hefði fram yfir það tæki sem væri verið að leggja til hliðar sökum aldurs þess og að varahlutir væru ekki lengur fáanlegir.

Á aðalfundinum kvaddi Lárus Sighvatsson sér hljóðs og kom ásamt Óðni Gunnari Þórarinssyni færandi hendi. Hann afhenti Hollvinasamtökunum afrakstur tveggja tónleika sem haldnir voru á Akranesi í vor, þar sem tónlistarmenn spiluðu lög Óðins, en tónlistarmennirnir gáfu vinnu sína. Um var að ræða peningagjöf að upphæð 350.000 krónur. Steinunn Sigurðardóttir formaður þakkaði höfðinglega gjöf.

Í samantekt á fundinum kom fram að Hollvinasamtökin hafa frá árinu 2015 fært HVE gjafir fyrir að verðmæti 65.258.678 króna. Stjórnin notaði þetta tækifæri og þakkaði öllum þeim einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum sem lagt hafa samtökunum lið.

Á fundinum var stjórn Hollvinasamtakanna endurkjörin. Hana skipa Steinunn Sigurðardóttir formaður, Sævar Freyr Þráinsson varaformaður, Róbert W. Jörgensen ritari, Skúli Ingvarsson gjaldkeri og Sigríður Eiríksdóttir meðstjórnandi. Í fulltrúaráð voru kjörin: Gísli Gíslason Akranesi, Anton Ottesen Hvalfjarðarsveit, Ásdís Geirdal Borgarbyggð, Sæmundur Kristjánsson Búðardal, Sigríður Finsen Grundarfirði, og Gyða Steinsdóttir Stykkishólmi sem öll gáfu kost á sér til endurkjörs. Guðmundur Björgvin Magnússon er nýr fulltrúi Hólmavíkur en fram kom að nú vantar Hollvinasamtökunum fulltrúa frá Ólafsvík til að fullskipa fulltrúaráðið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir