
Suðurnesjamenn vilja ganga til liðs við VR
Á aðalfundi Verslunarmannafélags Suðurnesja, sem haldinn var í Reykjanesbæ í gærkvöldi, var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, að gengið verði til viðræðna við VR um sameiningu félaganna. Á fundinum kynnti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, starfsemi félagsins og Gils Einarsson fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurlands (VMS) sagði frá reynslunni af sameiningu VR og VMS. Á vef VR segir að í máli Ragnars Þórs formanns hafi komið fram að hann væri ánægður með þessa ákvörðun og að slík sameining myndi styrkja stöðu félagsmanna á svæðinu og VR í heildina. Það hefðu fyrri sameiningar VR við önnur landsbyggðarfélög sýnt, þar sem þeim hafi fylgt efling félagsstarfs og aukin þjónusta á viðkomandi svæðum. Náist samkomulag milli félaganna í viðræðum, sem ekki er talið að muni taka langan tíma, verður tillaga um sameiningu lögð fyrir félagsmenn VS í allsherjaratkvæðagreiðslu. Samningurinn yrði svo lagður fram til staðfestingar á næsta aðalfundi VR.