Marella Steinsdóttir. Ljósm. úr safni.

Marella Steinsdóttir nýr formaður ÍA

Marella Steinsdóttir er tekur við formennsku í Íþróttabandlagi Akraness eftir 74. ársþing ÍA sem haldið var í gærkvöldi. Tekur hún við embættinu af Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur, sem var fyrsta konan til að gegna formennsku í ÍA. Hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Framkvæmdastjórn ÍA tekur töluverðum breytingum frá fyrra ári. Hörður Helgason tekur við embætti varaformanns í stað Sigurðar Arnar Sigurðssonar, sem gaf ekki kost á sér að þessu sinni. Stjórnin er auk þeirra Marellu og Harðar skipuð Dýrfinnu Torfadóttur og Tjörva Guðjónssyni, sem bæði eru nýliðar í stjórn og Svövu Huld Þórðardóttur. Varamenn eru Ragnhildur Inga Aðalsteinsdóttir og Pálmi Haraldsson.

Í ársskýrslu ÍA er greint frá því að rekstur bandalagsins hafi verið jákvæður um sem nemur 800 þúsund krónum árið 2017. Rekstrar- og fjármunatekjur námu rúmum 35,7 milljónum króna á árinu 2017 og rekstrargjöldin nær 35 milljónum. Framlög til aðildarfélaga voru tæpar 11 milljónir króna en helstu tekjuliðir voru rekstur þrekaðstöðu og útleiga. Stendur það undir ríflega helmingi af tekjum félagsins. Tekjur af Lottó og getraunum, sem og styrkur frá Akraneskaupstað eru rekstrinum einnig mikilvægar, eins og segir í skýrslunni.

Í árslok 2017 var eigið fé ÍA tæplega 70 milljónir króna. Stærstu liðirnir eru peningalegar eignir og hlutur bandalagsins í íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir