Ómar Örn Ragnarsson í anddyri norðurljósasýningarinnar. Ferðavænir minjagripir prýða veggina.

Opnar sýningarsal um norðurljósin

Ómar Örn Ragnarsson frumkvöðull og verslunarmaður í Borgarnesi hefur undanfarna mánuði undirbúið opnun norðurljósasýningar í Borgarnesi. Í þeim tilgangi festi hann kaup á húsnæði á jarðhæð fjölbýlishúss við Brákarbraut, beint á móti Landnámssetrinu, og mun þar opna sýningarsal um norðurljósin mánudaginn 2. apríl næstkomandi. Síðastliðinn föstudag hélt Ómar forsýningu í húsnæðinu þangað sem hann bauð fjölskyldu og vinum. Fulltrúum Skessuhorns var boðið að fylgjast með sýningu 18 mínútna langrar kynningarmyndar um norðurljósin. Í myndinni er m.a. fræðst um tilurð norðurljósanna, sagnir af ævafornum getgátum um af hverju þeim bregður fyrir á himni auk þess sem birtur er fjöldi myndbrota af dansandi norðurljósum. Ómar Örn segir að myndasýningarnar muni taka þróun og breytingum, en upphafið lofar vissulega góðu og enginn vafi er á að sýningin mun njóta vinsælda ferðafólks sem margt kemur hingað til lands gagngert vegna norðurljósanna.

Ómar Örn hefur um árabil haft mikinn áhuga á norðurljósunum og að nýta þau til að laða hingað áhugasama ferðamenn. Norðurljósasýningin verður opin frá klukkan 13 til 21 virka daga, en 13 til 18 á laugardögum. Þegar inn í húsið er komið mætir fólki afgreiðsla og lítil minjagripaverslun, en þaðan er gengið inn í myrkvaðan sýningarsal með fjörutíu sætum, 4k laservarpa, 360 gráðu hljóðkerfi og stóru sýningartjaldi. Auk þess að bjóða nú upp á þessar sýningar ætlar Ómar Örn að leggja áherslu á ferðir um Vesturland. Sjálfur hefur hann ferðaskrifstofuleyfi og býður upp á skoðunarferðir fyrir litla hópa þar sem áhersla verður til dæmis lögð á myndatökur í óspilltri náttúru Vesturlands. Fyrirhugað er að í sumar verði boðið t.d. upp á óvissuferðir, fuglaskoðun, hestaskoðun, myndatökur með dróna og upptökur með þrívíddartækni eru í skoðun. Á veturna verður meiri áhersla lögð á norðurljósaferðir á góða útsýnis- og myndatökustaði sem nóg er af á Vesturlandi.

Nánar má fræðast um verkefnið á vefsíðunni aurorashow.is sem væntanleg er í loftið þann 2. apríl næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.