Leikkonurnar. F.v: Halla Guðmundsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir, Edda Þórarinsdóttir og Kristbjörg Kjeld. Ljósm. Hilmar Þorsteinn Hilmarsson.

Fimm leikkonur flytja Passíusálmana í Saurbæ

Föstudaginn langa, 30. mars, munu fimm leikkonur flytja Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Leikkonurnar eru: Edda Þórarinsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Margrét Guðmundsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir sem jafnframt hefur umsjón með flutningnum. Tónlistarflutningur milli þátta verksins er í höndum Zsuzsönnu Budai organista kirkjunnar.

Leikkonurnar fimm störfuðu allar á árum áður við Þjóðleikhúsið en taka nú höndum saman um þetta verkefni til að vekja athygli á þeirri staðreynd að Hallgrímur Pétursson leitaði á sínum tíma til fjögurra mætra kvenna til þess að koma skáldverki sínu á framfæri við lesendur og hlustendur. Hann sendi þeim öllum eiginhandarrit að sálmunum með ósk um að þær gerðust kynningarfulltrúar hans. Auk þess átti hann eiginkonu sem bjó honum starfsskilyrði til þess að vinna að þessu mikla verki. Kona Hallgríms var Guðríður Símonardóttir.

Í tengslum við flutning Passíusálmanna í Saurbæ verður endurútgefinn bæklingur, Svoddan ljós mætti fleirum lýsa, með ágripi af sögu þeirra kvenna sem Hallgrímur treysti á sér til fulltingis. Þær voru Ragnhildur Árnadóttir frá Ytra-Hólmi, Helga Árnadóttir í Hítardal, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti. Höfundur textans er Steinunn Jóhannesdóttir.

Flutningur Passíusálmanna í Saurbæ á föstudaginn langa hefst klukkan 13.30 og stendur til 18.30. Í tilkynningu frá leikkonunum kemur fram að allir eru hjartanlega velkomnir í kirkjuna til að hlýða á hluta sálmalestursins eða allan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir