Ljósm. úr safni/ Haukur Páll.

Snæfell sigraði botnliðið

Snæfell sigraði botnlið Njarðvíkur, 81-74, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Snæfellskonur náðu undirtökunum snemma leiks, leiddu 15-5 um miðjan upphafsfjórðunginn og 29-20 að honum loknum. Þær voru áfram sterkari framan af öðrum leikhluta og náðu 13 stiga forskoti áður en hann var hálfnaður, 38-25. Þá tóku Njarðvíkurkonur á sig rögg og minnkuðu muninn jafnt og þétt það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þegar hálfleiksflautan gall höfðu þær lagað stöðuna í 43-41 og leikurinn galopinn.

En það breyttist strax eftir hléið. Snæfellskonur mættu gríðarlega ákveðnar til síðari hálfleiks Þær léku vel í þriðja leikhluta, náðu tólf stiga forskoti um hann miðjan og leiddu með 16 stigum fyrir lokafjórðunginn, 66-50. Gestirnir löguðu stöðuna aðeins í fjórða leikhluta en Snæfell gætti þess að hleypa þeim ekki upp að hlið sér. Fór svo að lokum að Snæfell sigraði með sjö stigum, 84-71.

Kristen McCarthy átti stórleik, skoraði 33 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 18 stig, Berglind Gunnarsdóttir skoraði 13 og gaf fimm stoðsendingar og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði tíu stig.

Shalonda Winton var atkvæðamest í liði gestanna. Hún skoraði 26 stig og reif niður 23 fráköst. Hulda Bergsteinsdóttir skoraði tólf stig og María Jónsdóttir skoraði tíu stig og tók sex fráköst.

Snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig, jafn mörg stig og Breiðablik í sætinu fyrir neðan en sex stigum á eftir næstu liðum þegar þrír leikir eru eftir í deildinni. Næst leikur Snæfell á laugardaginn, 17. mars, þegar liðið heimsækir Stjörnuna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira