Guðlín Erla Kristjánsdóttir og Jónína Hólmfríður Pálsdóttir gengu saman Jakobsveginn síðastliðið haust og ætla að segja frá ferðalaginu í Safnahúsinu í Borgarnesi á fimmtudaginn.

Segja frá göngu sinni um Jakobsveginn

Þær Jónína Hólmfríður Pálsdóttir og Guðlín Erla Kristjánsdóttir fóru saman í ferð um Jakobsveginn síðastliðið haust. Jakobsvegur eða Vegur heilags Jakobs er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu. Hann heitir á galisísku O camiño de Santiago, á spænsku El Camino de Santiago og frönsku Chemins de Saint-Jacques. Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela í héraðinu Galisíu á Spáni en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað. Nú ætla þær Jónína og Erla að segja frá ferðinni á fyrirlestri í Safnahúsinu í Borgarnesi í kvöld, fimmtudaginn 15. mars, klukkan 20. „Við ætlum að segja frá ferðalaginu okkar og koma með góða punkta fyrir þá sem hafa áhuga á að fara í slíka ferð. Við fórum á eigin vegum, því það er töluvert ódýrara en að fara í skipulagða ferð. Við munum m.a. fara yfir hvernig undirbúningi okkar var háttað og hvað er sniðugt að hafa með sér,“ segir Jónína.

Ferðalag þeirra tók alls fimm vikur. Þar af voru þær 30 daga á sjálfum veginum. „Við fórum gangandi fyrstu tvær vikurnar en leigðum svo hjól í sex daga og gengum síðustu tíu dagana. Þetta voru allt töluvert ólíkir kaflar og við munum segja vel frá því öllu í fyrirlestrinum. Erla er jógakennari og vinnur mikið með hugleiðslu og þessar pílagrímshugmyndir á meðan ég er sjálf meira fiðrildi og upplifanir okkar voru því ekki alveg eins. Við munum einmitt koma vel inn á það í fyrirlestrinum að svona ferðir er mjög andlegar og því ólíkt hvernig fólk upplifir þær,“ segir Jónína og hvetur alla sem hafa áhuga að kíkja við á fimmtudagskvöldið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir