Breiðafjarðarferjan Baldur hóf siglingar að nýju eftir vélarviðgerð 23. janúar, þegar þessi mynd var tekin. Ljósm. sá.

Gengið vel síðan Baldur hóf siglingar að nýju

Sem kunnugt er bilaði aðalvél Breiðarfjarðarferjunnar Baldurs undir lok nóvembermánaðar. Bilunin reyndist alvarlegri en talið var í fyrstu og af þeim sökum lágu ferðir niðri þar til 23. janúar. Þá var farin prufusigling að morgni dags og Baldur hóf síðar siglingar samkvæmt áætlun síðdegis sama dag. Að sögn Nadine Walter, markaðs- og sölustjóra Sæferða, hafa siglingar Baldurs gengið að áfallalaust síðan þær hófust að nýju eftir viðgerðina. „Það hefur gengið ágætlega, bílaumferðin er góð en það mættu alltaf vera fleiri farþegar. Ferjan er í flottu standi núna og allt gengið vel síðan við byrjuðum að sigla aftur,“ segir Nadine í samtali við Skessuhorn.

Á meðan gert var við vél Baldurs voru gerðar ýmsar endurbætur á ferjunni að innan. „Við gerðum það sem við gátum gert til að gera bátinn meira aðlaðandi fyrir farþegana. Skipt var um ofna og skipt um tæki á farþegaklósettum og gólfin dúklögð, auk þess sem gangarnir voru dúklagðir, ný teppi keypt og fleiri á leiðinni. Einnig voru veggir málaðir,“ segir hún.

Nú siglir Baldur samkvæmt áætlun eina ferð á dag alla daga nema laugardaga og svo eru farnar tvær ferðir á föstudögum. „Þetta er tilraunaverkefni sem innanríkisráðuneytið og Vegagerðin fengu okkur í að prufa. Núna er áætlað að Baldur fari tvær ferðir á föstudögum til 23. febrúar. Eftir það verður skoðað hvernig gengið hefur og tekin ákvörðun um framhaldið,“ segir Nadine Walter að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira