Frá undirritun samningsins. Fyrir miðju handsala samninginn þeir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og Alexander Verkhovsky, eigandi Gidrostroy.

Skaginn 3X og samstarfsfyrirtæki setja upp verksmiðju á Kúrileyjum

Tæknifyrirtækin Skaginn 3X á Akranesi og Frost ehf. og Rafeyri ehf. á Akureyri hafa undirritað samning um uppsetningu fullkominnar uppsjávarverksmiðju á Kúrileyjum. Verksmiðjan er byggð fyrir dótturfélag rússneska útgerðarfélagsins Gidrostroy. Þar verður mögulegt að flokka, pakka og fyrsta 900 tonn af uppsjávarfiski á hverjum sólarhring.

Kurileyjar eru við austurströnd Rússlands, milli Kamtsjatkaskaga og Japans. Á eyjunum öllum búa rúmlega 19 þúsund manns sem lúta rússneskri stjórn. Verksmiðjan sem íslensku fyrirtækin munu setja upp verður sett upp á Shikotaneyju, sem er ein af syðstu eyjum eyjaklasans. „Verksmiðjan verður gríðarleg lyftistöng fyrir mannlífið á eyjunni og mun skapa þar mikilvæg störf,“ segir Alexander Verkhovsky, eigandi Gidrostroy. „Eftir að hafa skoðað verksmiðjur víða um heim var augljóst að skipta við þessi íslensku félög.“

Gidrostroy stundar veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski, meðal annars Alaskaufsa og sardínellu, sem er í miklum vexti á svæðinu um þessar mundir. Áætlað er að verksmiðjan á Shikotaneyju verði sett upp í tveimur áföngum, næsta haust og síðan vorið 2019. Vonast er til þess að hægt verði að hefja vinnslu á ufsa í hluta verksmiðjunnar í haust, en að hún hafi náð fullum afköstum fyrri part næsta árs.

 

Stíga skref inn á Kyrrahafsmarkað

Með undirritun samningsins stíga íslensku fyrirtækin stórt skref inn á Kyrrahafsmarkaðinn. Íslensku félögin hafa áður unnið saman að skipum og uppsetningu verksmiðja í gegnum Knarr Maritime. „Það er að sýna sig að Knarr er að nýtast okkur gríðarlega vel og er í raun að ryðja brautina inn á þessa markaði,“ segir Guðmundur Hannesson, sölustjóri Frost. „Verkefnið er stórt og mikilvægt fyrir bæði Gidrostroy og okkur, en þetta byrjaði allt síðasta vor þegar við seldum og hafhentum kerfi þar sem okkar lausn innihélt meðal annars flokkara frá íslenskum samstarfsaðila okkar, Style,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3x. „Reynslan af því verkefni var einfaldlega þannig að báða aðila langaði að vinna meira saman,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira