Keppt í ístölti. Ljósm. úr safni.

Ísmót Borgfirðings á morgun

Félagsmenn í Borgfirðingi, hinu nýja borgfirska hestamannafélagi, ætla að gera sér glaðan dag og hittast á Vatnshamravatni á morgun, laugardag og reyna með sér á Ísmóti.

Keppt verður í þremur flokkum, karlar 18 ára og eldri, konur 18 ára og eldri og svo börn og unglingar 17 ára og yngri. Keppt verður með firmakeppnissniði, allir inni á í einu og svo fækkar í hópnum eftir því sem líður á. Dómarar horfa fyrst fremst á hægt tölt og fegurðartölt en vel má vera að önnur tilþrif verði verðlaunuð sérstaklega.

Borgfirðingur var svo heppinn að fá fyrirtækið Matfugl til að gefa verðlaun þannig að það verður víða kjúklingur á borðum næstu daga. Einungis verður valinn sigurvegari hvers flokks en öðrum verðlaunum dreift á hópinn eftir hugmyndaflugi dómara. Munum að það er skemmtinefnd sem stendur fyrir þessu þannig að stífustu reglur verða geymdar heima. Þó er hjálmaskylda.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta og rétt að taka fram að gestum er heimil þátttaka. Til að komast að vatninu er best að fara veginn að gömlu nautastöðinni.

Mótið hefst kl. 13:30 á morgun, laugardaginn 17. febrúar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira