Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Slæmur þriðji leihluti varð Skallagrími að falli

Skallagrímskonur urðu að játa sig sigraðar gegn Keflavík, 98-69, þegar liðin mættust í 19. umferð Domino‘s deildar kvenna á laugardag. Leikið var suður með sjó. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tók Keflavík öll völd á vellinum í þeim síðari og sigraði að lokum örugglega.

Keflavíkurliðið byrjaði betur og komst í 18-8 um miðjan upphafsfjórðunginn. Skallagrímskonur náðu þá góðum kafla og minnkuðu muninn í fimm stig áður en leikhlutinn var úti, 24-19. Keflavík komst snarlega tíu stigum yfir að nýju í upphafi annars leikhluta en jafn fljótt voru Skallagrímskonur búnar að helminga það forskot. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks fylgdu þær heimaliðinu eins og skugginn. Þær minnkuðu muninn í eitt sig seint í fyrri hálfleik en Keflavík átti lokaorðið og leiddi með fjórum stigum í hléinu, 44-40.

Skallagrímsliðið átti afleitan þriðja leikhluta og skoraði aðeins átta stig allan fjórðunginn. Keflavík tók öll völd á vellinum, skoraði 33 stig og leiddi með 29 stigum fyrir lokaleikhlutann. Þar með voru úrslit leiksins ráðin og fór að lokum svo að Keflavík sigraði með 98 stigum gegn 69.

Carmen Tyson-Thomas skoraði 28 stig fyrir Skallagrím og tók átta fráköst. Jóhanna Björk Sveinsdóttir var með 17 stig og tíu fráköst.

Telma Dís Ágústsdóttir skoraði 26 stig og tók sex fráköst í liði Keflavíkur, Brittanny Dinkins var með 23 stig og 17 fráköst, Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 14 stig og Embla Kristínardóttir var með tólf sig og sjö fráköst.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með 16 stig, jafn mörg og Snæfell í sætinu fyrir ofan og Breiðablik í sætinu fyrir neðan. Næst leikur Skallagrímur miðvikudaginn 21. febrúar þegar liðið heimsækir Stjörnuna.

kgk/ Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira