Svipmynd frá fundinum. Eins og sjá má var húsfyllir og ekki næg sæti fyrir alla fundarmenn. Ljósm. sm.

Húsfyllir á íbúafundi í Dölum

Húsfyllir var á íbúafundi í Dalabúð í Búðardal í gærkvöldi. Fullyrt var að aldrei hefði verið eins vel mætt á íbúafund í Dölum. Dagskráin hófst á kynningu á fjárhagsáætlun til næstu ára og því nýst var kynnt ljósleiðaraverkefni sveitarfélagsins og síðan fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi. Undir þeim lið var kynning á fyrirhuguðum vindorkugarði í landi Hróðnýjarstaða í Laxárdal. Eins og áður hefur verið greint frá áformar fyrirtækið Storm orka ehf. að reisa þar allt að 40 vindmyllur sem gætu framleitt um 130 megawött. Hins vegar kom fram á fundinum að málin væru á byrjunarreit og langt frá því að eitthvað væri fast í hendi varðandi vindorkugarð að Hróðnýjarstöðum.

Að loknu kaffihléi var opnað fyrir fyrirspurnir og almennar umræður. Eins og við var að búast voru umræður um vindorkugarðinn fyrirferðamiklar. Nokkur hiti var í fundarmönnum vegna málsins. Einkum voru ábúendur á nærliggjandi jörðum gagnrýnir á áformin, sem og landeigendur á sumarbústaðajörðum í nágrenninu.

Annað stóra málið var salan á Laugum í Sælingsdal, en rætt var um hana í tengslum við fjárhagsáætlun. Nokkrir fundarmenn kváðu sér hljóðs og gagnrýndu sveitarstjórn fyrir framgang söluferlisins. Tóku þeir skýrt fram að þeir væru ekki andsnúnir því að selja Laugar, né heldur uppbyggingu íþróttamannvirkja við skólann í Búðardal. Gagnrýnin sneri að því hvernig haldið var á spöðunum við söluna á Laugum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Strompurinn fallinn

Sementsstrompurinn á Akranesi var sprengdur kl. 14:16 í dag. Sprakk sprengihleðsla í um 25 metra hæð og eftir það féll... Lesa meira