Svipmynd frá fundinum. Eins og sjá má var húsfyllir og ekki næg sæti fyrir alla fundarmenn. Ljósm. sm.

Áform um vindorkugarð kynnt á íbúafundi í Dölum

Húsfyllir var á íbúafundi í Dalabúð í Búðardal í gærkvöldi og fullyrt var að aldrei hafi jafn vel verið mætt á íbúafund þar í sveit. Dagskráin hófst á kynningu á fjárhagsáætlun til næstu ára. Því næst var kynnt ljósleiðaraverkefni sveitarfélagsins og síðan fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi.Undir þeim lið var kynning á fyrirhuguðum vindorkugarði í landi Hróðnýjarstaða í Laxárdal. Magnús B. Jóhannesson er eigandi og framkvæmdastjóri Storm orku ehf. og telur vindorku vera það sem koma skal í orkunotkun Íslendinga. Magnús sagði hugsanlegt að vindorkugarður að Hróðnýjarstöðum yrði byggður upp í nokkrum áföngum. Áætlað er að vindmyllurnar sjálfar verði hver um sig um 94 metrar á hæð og með 112 metra vænghafi, samtals um 150 metrar þegar vindmylluspaði er í efstu stöðu. Áætlað afl hverrar vindmyllu er um 3,6 MW. Fyrirtækið áætlar að reisa 28 til 40 vindmyllur á allt að 600 hektara iðnaðarsvæði í landi Hróðnýjarstaða. Hámarks afkastageta vindorkugarðsins yrði því um 100 til 130 MW, en endanleg stærð mun ráðast af hagkvæmni verkefnisins, markaðsforsendum og öðrum atriðum sem hafa áhrif á efnahagslega og samfélagslega hagkvæmni þess. Þá er áætlað að reisa tengivirki í landi Hróðnýjarstaða sem myndi tengjast Glerárskógarlínu 1, en hún liggur í gegnum land Hróðnýjarstaða.
Vindorkugarður er matsskyldur samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Verkefnið er á byrjunarstigi. Næstu skref fela í sér ýmsar rannsóknir, þar á meðal uppsetningu mælingamasturs og rannsóknir á fuglum, flóru, jarðvegi á svæðinu og þess háttar, sem og leyfisumsóknir. Að þeim loknum yrðu gerðir orkusölusamningar við kaupendur orkunnar og hafist handa við að reisa vindorkugarðinn. Áætlað er að ferlið allt taki um tvö til þrjú ár. Ef allt gengur að óskum gæti afhending orkunnar hafist um mitt ár 2020, en fram kom á fundinum að enn væri ekkert fast í hendi varðandi þetta verkefni.

Nágrannar mótfallnir vindorkugarði
Að loknu kaffihléi var opnað fyrir fyrirspurnir og almennar umræður. Eins og við var að búast voru umræður um vindorkugarðinn fyrirferðamiklar. Nokkur hiti var í fundarmönnum vegna málsins. Einkum voru ábúendur á nærliggjandi jörðum gagnrýnir á áformin, sem og landeigendur á sumarbústaðajörðum í nágrenninu.
Einnig kváðu nokkrir sér hljóðs og gagnrýndu söluna á Laugum í Sælingsdal, en rætt var um hana í tengslum við fjárhagsáætlun. Nokkrir fundarmenn kváðu sér hljóðs og gagnrýndu sveitarstjórn fyrir framgang söluferlisins. Tóku þeir skýrt fram að þeir væru ekki andsnúnir því að selja Laugar, né heldur uppbyggingu íþróttamannvirkja við skólann í Búðardal. Gagnrýnin sneri að því hvernig haldið var á spöðunum við söluna á Laugum.

Parhúsalóðir í Búðardal
Í kynningu á skipulagsbreytingum var greint frá stækkun á íbúðasvæði í Búðardal. Stækkunin felur í sér að íbúðasvæði við Borgarbraut er stækkað til vesturs. Þar er gert ráð fyrir tveimur raðhúsalóðum með samtals sex til sjö íbúðum.
Einnig var rætt um ljósleiðaraverkefni sveitarfélagsins og skipulagsmál á fundinum. Áætlað er að ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins ljúki á næsta ári, 2019. Áætlað er að bygging nýrrar íþróttamiðstöðvar í Búðardal hefjist á þessu ári. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að uppbygging Vínlandsseturs í Leifsbúð hefjist á þessu ári og stefnan er að henni verði lokið á næsta ári. Þó er enn óljóst með lokafjármögnun verkefnisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira