Hver veit nema kúnum á Erpsstöðum muni bregða fyrir í nýrri íslenskri kvikmynd sem tekin verður upp í Dölunum. Ljósm. úr safni.

Ný íslensk kvikmynd tekin upp í Dölum

Á næstunni verður teymi kvikmyndagerðarmanna við upptökur að nýrri íslenskri kvikmynd í Dalabyggð. Helsti tökustaður myndarinnar verður bærinn Erpsstaðir. Um er að ræða nýja mynd leikstjórans Gríms Hákonarsonar, sem er líklega þekktastur fyrir myndina Hrúta frá árinu 2015. „Kvikmyndin ber titilinn Héraðið og er eins konar kvensöguhetja,“ segir Sara Nassim, framleiðslustjóri myndarinnar, í samtali við Skessuhorn. Með aðalhlutverk myndarinnar fara Arndís Hrönn Egilsdóttir, Sigurður Sigurjónsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Að sögn Söru hefjast tökur kvikmyndarinnar innan tíðar. „Upptökur byrja í lok næsta mánaðar og við erum orðin mjög spennt fyrir því að byrja að vinna með öllu því góða fólki sem við höfum kynnst á svæðinu í undirbúningi okkar,“ segir Sara.

 

Heimamönnum boðið í prufur

Teymið sem að myndinni vinnur leitar um þessar mundir að aukaleikurum í ýmis hlutverk, auk þess sem mun á einhverjum tímapunkti vanta fólk í fjöldasenur. Ætlunin er að taka aukaleikara í prufur í Dalabúð í Búðardal á morgun, fimmtudaginn 1. febrúar, frá kl. 14:00 og fram eftir degi. Leitað er að fólk um það bil á aldrinum 30 til 70 ára, bæði konum og körlum. Áhugasamir eru beðnir að tilkynna þátttöku með því að senda skilaboð til Bjarnheiðar Jóhannsdóttur, ferðamálafulltrúa Dalabyggðar, eða Valdísi Gunnarsdóttur sveitarstjórnarfulltrúa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Strompurinn fallinn

Sementsstrompurinn á Akranesi var sprengdur kl. 14:16 í dag. Sprakk sprengihleðsla í um 25 metra hæð og eftir það féll... Lesa meira