Þrír bændafundir á Vesturlandi í dag

Forystufólk Bændasamtaka Íslands er þessa dagana á ferð um landið og fundar með bændum.. Samtals eru skipulagðir 18 almennir bændafundir víðs vegar um landið í þessari viku. Þar af eru þrír fundir í dag hér á Vesturlandi. Klukkan 12 í dag á Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi fyrir Snæfellsnes en klukkan 20:30 í dag á tveimur stöðum. Í Dalabúð í Búðardal og matsal LbhÍ á Hvanneyri og hefjast þeir báðir klukkan 20:30.

Að sögn Sindra Sigurgeirssonar, formanns BÍ, er af mörgu að taka á fundunum. Rætt verður um stöðuna í landbúnaðinum og farið vítt yfir sviðið. Árið 2017 var fyrsta ár nýrra búvörusamninga og fyrir liggur fyrsta endurskoðun þeirra. Þá er nýlegur dómur EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti og eggjum bændum umhugsunarefni og ljóst að því máli er hvergi nærri lokið. Sindri segir að viðfangsefni næstu missera verði áfram þau að bæta hag bænda og móta framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina. Hann segir mikilvægt fyrir bændastéttina að standa saman og að rödd hennar hljómi sem víðast og sterkast. „Við verðum að gæta hagsmuna landbúnaðarins og þess vegna rekum við öflug Bændasamtök,“ segir Sindri í bréfi til félagsmanna sem birt var í Bændablaðinu. Á fundunum munu fulltrúar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins einnig verða með í för og ræða um framtíðarsýn og þróun ráðgjafarþjónustu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira