Steinþór Árnason, nýr eigandi Lesbókarinnar Café við Akratorg á Akranesi. Ljósm. kgk.

Steinþór Árnason er nýr eigandi Lesbókarinnar

Steinþór Árnason er nýr eigandi Lesbókarinnar Café við Akratorg á Akranesi. Keypti hann rekstur kaffihússins af Christel Björgu Rúdólfsdóttur Clothier og Guðleifi Rafni Einarssyni, sem opnuðu Lesbókina í janúarbyrjun á síðasta ári. „Ég skrifaði undir í gær,“ segir Steinþór í samtali við Skessuhorn á fimmtudaginn. Hann kveðst ekki ætla að gera stórtækar breytingar á rekstrinum. „Lesbókin hefur staðið sig vel, maður heyrir ekkert annað en að hér hafi hlutirnir verið gerðir vel. Það sem boðið var upp á bæði þjónustulega og vörulega séð held ég að hafi ríkt ánægja um. Þess vegna ætla ég til dæmis að halda nafninu og ekki gera verulegar útlitsbreytingar á staðnum,“ segir hann. „Stærstu breytingarnar verða þær að ég ætla að stækka staðinn. Sófahornið fer í burtu og í staðinn koma borð og stólar. Hér hefur ekki verið leyfi fyrir meira en 25 manns en ég sæki um leyfi fyrir 50 til 75 manns,“ bætir hann við. Ástæða þess er að á staðnum hafa gestir aðeins haft aðgang að einu salerni. Hins vegar er annað salerni í húsinu og hyggst Steinþór leysa málið með því að veita gestum aðgang að því. Þar með getur hann tvöfaldað leyfilegan gestafjölda hverju sinni. „Að vera með 25 manna stað í hundrað fermetra rými á jarðhæð er mjög vel í lagt. Það er pláss fyrir annað eins af fólki í húsinu og þarf aðeins að veita aðgang að öðru salerni til að tvöfalda kaffihúsið að stærð,“ segir hann.

Nánar er rætt við Steinþór í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira