Þangskurður hefur fram til þessa að stærstum hluta verið frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum.

Lagt til að þangskurður verði að hámarki 40 þúsund tonn

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir um þessar mundir endurskoðaða reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni sem Kristján Þór Júlíusson ráðherra undirritaði 8. janúar síðastliðinn og stefnt er að birtingu á í Stjórnartíðindum fyrir mánaðamótin næstu. Auk þess kynnir ráðuneytið ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um töku þangs úr Breiðafirði til næstu fimm ára. Ráðherra hefur valdheimild til að takmarka þangslátt úr firðinum með stjórnun á viðmiðunarafla einstakra móttökustöðva, en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíka leyfisbindingu, þrátt fyrir útgáfu reglugerðarinnar.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarsjónarmið að heildartekja klóþangs í Breiðafirði árin 2018 – 2022, fari ekki yfir 40 þúsund tonn á ári. Uppskeran hefur frá 1980 oftast verið á bilinu 10 – 18 þúsund tonn á ári og nær eingönu verið á vegum Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. Nú hyggjast fleiri sækja í þessa auðlind. Samkvæmt ráðgjöf sinni gerir Hafrannsóknastofnun ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda það magn sem sótt verður í fjörðinn. Samkvæmt reglugerðinni er það Fiskistofa sem verður að gefa út leyfi til þangskurðar til skipa eða pramma en aðgangur að netlögum sjávarjarða til sláttar á þangi fer samkvæmt samkomulagi við ábúendur eða landeigendur hverju sinni.

„Stofnstærðarmat, framkvæmt í Breiðafirði, bendir til að um 1,37 milljón tonn af klóþangi sé í firðinum. Í ljósi varúðarsjónarmiða miðast ráðgjöf við 3% af því mati. Verði þangtekja samkvæmt þessu mun það leiða til um það bil tvöföldunar á magni klóþangs sem tekið er árlega úr Breiðafirði. Þetta nýtingarhlutfall er þó mun lægra en miðað er við í Kanada, enda er vöxtur klóþangs hægari hér við land. Síðan 1975 hefur klóþangs eingöngu verið aflað í Breiðafirði,“ segir í kynningu Hafró á ráðgjöf um þangslátt í firðinum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira