Stofnandi Facebook gefur í skyn að markaðsvæðingin hafi gengið of langt

Mark Zuckerberg stofnandi og eigandi samskiptasíðunnar Facebook ritaði í gær pistil um veigamiklar breytingar sem nú stendur til að gera á samskiptasíðunni. Hann segir megin tilgang breytinganna að stuðla að því að fólk verji sem best tíma sínum á Facebook. Án þess að segja það berum orðum, er ástæðan sú að ungt fólk sérstaklega ver sífellt minni tíma á Facebook en það gerði. Zucerberg segir að markmið Facebook frá upphafi hafi verið að tengja saman fólk sem væri annt hvort um annað og gefur í skyn að markaðsvæðingin hafi nú gengið of langt. Í því sambandi nægir að skrolla niður hefðbundna Facebook síðu einstaklings til að sjá að meginhluti þess sem þar er að finna er ýmist kostuð umfjöllun eða beinar auglýsingar.

Zuckerberg viðurkennir að nú hafi notkun síðunnar þróast með þeim hætti að fyrirtæki, stofnanir, félög og fjölmiðlar hafi yfirtekið miðilinn og hrakið þaðan burt fólk sem kærir sig ekki um sífellt áreiti auglýsinga og áreitis frá þeim. Aðrar upplýsingar og þá persónulegri drukkna í áreiti markaðsaflanna.

Byggt á þessum upplýsingum hefur Facebook nú ákveðið að gera meiriháttar breytingar á samskiptasíðunni. Draga mun úr vægi þess að fyrirtæki, stofnanir og fjölmiðlar geti deilt fréttum og kynningarefni og í raun yfirtekið síður almennings á kostnað persónulegra samskipta sem fólk vill hafa við vini, ættingja og hópa sem það sjálft velur þátttöku í. Kynningarefni frá fyrirtækjum verður innan tíðar aðeins sýnilegt í afmörkuðum hópum sem eru sérstaklega skráðir til þess, svo sem umræðuhópum um afmörkuð málefni. Af þessu leiðir að fyrirtæki sem að stórum hluta hafa treyst á Facebook sem kynningarmiðil verða að leita annarra leiða en þau hafa farið undanfarin ár. Vægi hefðbundinna heimasíðna og annarra samskiptasíðna mun því aukast að nýju ef marka má þessar upplýsingar eiganda Facebook.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira