Svipmynd af tónleikunum. Ljósm. Skagafréttir.

Magnaðir nýárstónleikar Kórs Akraneskirkju

Kór Akraneskirkju blés til nýárstónleika í Bíóhöllinni á Akranesi síðastliðinn laugardag. Uppselt var á tónleikana, fullt út úr dyrum og mjög ánægjulegt að sjá hversu vel var mætt. Mér finnst alltaf mjög gaman að fara á tónleika í Bíóhöllinni því það myndar svo skemmtilega stemningu að ganga inn í sínu fínasta pússi og fara svo að velja sér sæti í þessarri frábæru tónleikahúsi sem Skagamenn eigum.

Eftir að tónlistin tók að óma var greinilegt að prógrammið var mjög vel æft og allt til fyrirmyndar; hljómurinn var góður, einsöngurinn upp á tíu og Kammersveitin alveg frábær. Lagavalið var líka mjög skemmtilegt. Fyrir hlé voru leikin falleg íslensk dægurlög sem flestir kannast við, en eftir hlé tók við frumflutningur á útsetningum John Rutter af lagaflokknum Feel the Spirit. Heppnaðist það mjög vel.

Stjórnandi var Guðmundur Óli Gunnarsson, Auður Guðjohnsen söng einsöng á meðan Sveinn Arnar Sæmundsson, stjórnandi Kórs Akraneskirkju, söng sjálfur með kórnum.

Það mætti segja að allir ættu hér eftir að byrja árið á að fara á Nýárstónleika Kórs Akranesskirkju. Fyrir mig var afar skemmtilegt að hefja árið á þessum tónleikum, sem var mikið lagt í og allt heppnaðist eins og í sögu. Allavega mun ég gera þetta að árlegum viðburði hjá mér og mæli eindregið með að aðrir geri slíkt hið sama. Takk kærlega fyrir mig!

 

Hrafnhildur Harðardóttir

Líkar þetta

Fleiri fréttir