Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks tekur hér við lyklavöldunum að Bárugötu 10-12 úr höndum Torfa Þorsteinssonar framkvæmdastjóri botnfiskssviðs HB Granda. Vel við hæfi þótti að lyklaskiptin ættu sér stað við lágmynd af frumkvöðlunum, útgerðarhjónunum Haraldi Böðvarssyni og Ingunni Sveinsdóttir sem prýðir vegg á efsta stigapallinum í húsinu. Ljósm. Skessuhorn/mm

Ísfiskur tók við lyklavöldum að fiskvinnsluhúsum

Undir lok síðustu viku var formleg afhending lykla og yfirtaka Ísfisks á fiskvinnsluhúsunum og skrifstofum að Bárugötu 10-12 á Akranesi. Skrifað var undir kaupin að húsinu í lok ágústmánaðar en þá greindi Skessuhorn ítarlega frá fyrirætlunum Ísfisks um að flytja alla starfsemi sína úr Kópavogi og á Akranes. HB Grandi og dótturfyrirtæki hans leigja engu að síður miðhæð húsanna fyrir ýmsa fiskvinnslu og pökkun auk aðgangs að frystigeymslum.

Albert Svavarsson framkvæmdastjóri Ísfisks var að vonum ánægður með þennan áfanga og hlakkaði til að hefja starfsemi í húsinu og auka samstarf sitt við Skagamenn. Nú þegar er búið að flytja töluvert af fiskvinnslutækjum frá Breiðdalsvík á Akranes og verður unnið að uppsetningu þeirra og undirbúið að vinnsla á vegum Ísfisks geti hafist fyrir næstu mánaðamót. 15-20 manns munu vinna á vegum fyrirtækisins á Akranesi á fyrri hluta þessa árs við vinnslu, pökkun og frystingu á þorski á Bandaríkja- og Kínamarkað. Það fólk kemur úr röðum íbúa á Akranesi. Síðsumars verður svo síðari áfangi í flutningi fyrirtækisins á Akranes þegar fiskvinnslan þar með um 30 störfum verður flutt úr Kársnesinu í Kópavogi og á Akranes. Ekki liggur fyrir hversu margir núverandi starfsmanna Ísfisks munu velja að fylgja með á Akranes en Albert Svavarsson segir nær fullvíst að þá verði til enn fleiri störf fyrir Skagamenn og tækifæri að ganga til liðs við fyrirtækið. Albert segir að næsta haust megi því búast við að minnsta kosti 60 manns muni starfa við fiskvinnsluna á Akranesi. Verulega kveður að Ísfiski á markaði, en á síðasta ári var það næst stærsti kaupandi á fiskmörkuðum hér á landi, einungis Frostfiskur keypti meira. Ísfiskur stefnir á að vinna úr um fimm þúsund tonnum af bolfiski á ári, að stærstum hluta þorski og ýsu.

Samhliða sölu á fiskvinnsluhúsunum í sumar gerði HB Grandi samning um leigu á stórum hluta annarrar hæðar fiskvinnsluhúsanna. Þar er nú hafin vinnsla á vegum dótturfyrirtækja HB Granda. Starfsemi Blámars var flutt úr Örfirisey á Akranes og þá fer einnig fram pökkun á ýmsum vörum Norðanfisks í húsnæðinu. Sú vinnsla er einkum á innanlandsmarkað og pakkað í tveimur aðskildum pökkunarlínum. Nú vinna því hátt í tíu manns HB Granda og dótturfélaga að ýmsum störfum í húsinu og mun fjölga þegar vinnsla og hrognafrysting hefst á Akranesi þegar loðnuvertíðin gengur í garð. Auk þess rekur HB Grandi þjónustuverkstæði áfram á Akranesi fyrir útgerð og vinnslu, auk dótturfélaganna Norðanfisks og Hrognavinnslu Vignis G Jónssonar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira