Stórleikur Kristen McCarthy dugði Snæfelli ekki til að knýja fram sigur. Ljósm. úr safni/ sá.

Bikarævintýri Vesturlandsliða á enda

Snæfell og Skallagrímur töpuðu leikjum sínum

Undanúrslit Maltbikars kvenna í körfuknattleik voru leikin í Laugardalshöllinni í Reykjavík í gær. Í fyrri leiknum mættust Skallagrímur og Njarðvík og í þeim síðari áttust við Snæfell og Keflavík. Báðir leikirnir voru æsispennandi og hefði sigurinn getað endað hvorum megin sem var. En lukkan var ekki með Vesturlandsliðunum í gær, því bæði Skallagríms- og Snæfellskonur máttu bíta í það súra epli að þurfa að játa sig sigraðar. Hafa Vesturlandsliðin því lokið keppni í bikarnum að þessu sinni.

 

Stigalausar en á leið í úrslit

Skallagrímur var sterkara liðið framan af undanúrslitaleiknum gegn Njarðvík. Þær höfðu fimm stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta, 26-21 og héldu nokkurra stiga forystu allan annan leikhluta. Mest komst Skallagrímur níu stigum yfir skömmu fyrir hálfleik, en hafði sjö stiga forskot í hléinu,46-39.

Strax í upphafi síðari hálfleiks kvað við annan tón í leiknum og Njarðvíkurliðið gerði öllum fullljóst að þær ætluðu ekki að tapa leiknum fyrr en í fulla hnefana. Með mikilli baráttu og vel skipulögðum leik náði Njarðvík að gera forystu Skallagríms að engu og hleypa mikilli spennu í leikinn. Frá miðjum þriðja leikhluta fylgdust liðin að en Skallagrímur var tveimur stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 60-58. Njarðvík komst yfir í upphafi fjórða leikhluta en Skallagrímur jafnaði. Liðin skiptust á að skora þar til Njarðvík náði yfirhöndinni eftir miðjan fjórðunginn. Þegar tvær mínútur lifðu leiks voru Skallagrímskonur sex stigum undir, 69-75. Þær minnkuðu muninn í þrjú stig og fengu síðasta skot leiksins og tækifæri til að jafna metin. Skotið geigaði og urðu Skallagrímskonur að sætta sig við þriggja stiga tap, 75-78. Njarðvíkurliðið er hins vegar vitnisburður um að allt getur gerst í bikarnum. Liðið situr á botni Domino‘s deildarinnar, hefur ekki unnið deildarleik í allan vetur, en er aftur á móti á leið í úrslit Maltbikarsins.

Zimora Esket Morrison var atkvæðamest í liði Skallagríms með 25 stig, 15 fráköst, fimm stoðsendingar og fjögur varin skot. Carmen Tyson-Thomas var með 17 stig og sjö fráköst og Jóhanna Björk Sveinsdóttir tíu stig, níu fráköst og sex stoðsendingar.

Shalonda Winton var stigahæst í liði Njarðvíkur með 31 stig og tók sjö fráköst að auki. Hrund Skúladóttir var með 14 stig og fimm fráköst og Erna Freydís Traustadóttir ellefu stig.

 

Framlengdur háspennuleikur

Spennan var ekki minni í síðari undanúrslitaleiknum en þeim fyrri. Þar mættust Snæfell og Keflavík. Liðin byrjuðu leikinn nokkuð brösulega enda spennustigið hátt. Það fór hins vegar ekki framhjá neinum að bæði ætluðu þau sér sigur í leiknum. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og Snæfell leiddi með einu stigi að honum loknum, 20-19. Keflavík hafði heldur yfirhöndina framan af öðrum fjórðungi. Suðurnesjakonur komust sex stigum yfir en Snæfell var aldrei langt undan. Eftir því sem leið nær hálfleik þjarmaði Snæfell stöðugt meira að Keflavík og með þriggja stiga flautukörfu náðu höfðu þær eins stigs forystu í hléinu,41-40.

Leikurinn var hnífjafn eftir hléið og liðin fylgdust að hvert fótmál. Keflavík náði yfirhöndinni um miðjan þriðja leikhluta og hafði sjö stiga forskot að honum loknum, 56-63. En Snæfellsliðið var hvergi af baki dottið og með sterkum varnarleik náðu þær að minnka muninn í eitt stig áður áður en lokafjórðungurinn var hálfnaður. Með góðri rispu undir lok leiks komst Snæfell fjórum stigum yfir þegar mínúta lifði leiks, 75-71. Keflavíkurkonur svöruðu með stuttri sókn og stálu síðan boltanum og jöfnuðu metin í 75-75. Snæfell fékk hins vegar síðasta skot leiksins. Kristen McCarthy lyfti sér upp og lét skotið vaða. Boltinn skoppaði fjórum sinnum á hringnum áður en hann féll af. Dramatískara verður það varla og því varð að grípa til framlengingar.

Keflavík hafði heldur undirtökin í framlengingunni en Snæfell sá til þess að halda spennunni í hámarki. Keflavík skoraði fyrstu fimm stigin en Snæfell náði að minnka muninn í eitt stig þegar mínúta var eftir, 81-82. Keflavík klikkaði í næstu sókn og Snæfell fékk tækifæri til að komast yfir. Skot Snæfells geigaði þegar fimm sekúndur voru á klukkunni og því urðu þær að brjóta. Keflavík bætti við einu stigi af vítalínunni og þar við sat. Lokatölur 81-83, Keflavík í vil.

Kristen McCarthy átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 40 stig, reif niður 18 fráköst og var með fimm stolna bolta. Berglind Gunnarsdóttir kom henni næst með 26 stig.

Brittany Dinkins var með 35 stig, tólf fráköst og fimm stoðsendingar í liði Keflavíkur og Birna Valgerður Benónýsdóttir 15 stig og fimm fráköst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir