Kristján og Edda Arinbjarnar í Húsafelli á Mannamóti ferðaþjónustunnar á síðasta ári. Næsta Mannamót verður einmitt haldið í næstu viku, 18. janúar. Ljósm. kgk.

Staða framkvæmdastjóra Markaðsstofu Vesturland er laus

Í Skessuhorni í dag er auglýst laus til umsóknar staða framkvæmdastjóra Markaðsstofu Vesturlands. Kristján Guðmundsson, sem gegnt hefur starfinu undanfarin ár stefnir nú að nýjum verkefnum og hefur sagt starfi sínu lausu. „Ég fékk spennandi tilboð um annað starf í Húsafelli og ákvað að þetta væri kjörið tækifæri til að breyta til. Ég verð hér hjá Markaðsstofunni út febrúar og byrja í nýju vinnunni í mars.“ Kristján mun taka við sölu- og markaðsmálum í Húsafelli. „Mér hefur liðið mjög vel hjá Markaðsstofu Vesturlands og þetta starf hefur verið virkilega lærdómsríkt og skemmtilegt. Ég hef fengið að fylgjast með ferðaþjónustunni vaxa og breytast mikið á þessum tíma og hefur verið alveg einstaklega gaman að taka þátt í því. Ég hef ekki tölu um hversu margir ferðamenn komu hingað árið sem ég byrjaði hjá Markaðsstofunni, en árið á undan komu hingað 300.000 ferðamenn. Óstaðfestar tölur fyrir árið 2017 segja að ferðamenn á Vesturlandi hafi verið um 800.000 talsins í fyrra. Það hefur því mjög margt breyst á þessum tíma, en ég er spenntur að takast á við ný verkefni og halda áfram að taka þátt í þeirri þróun sem er að eiga sér stað í ferðaþjónustu á Vesturlandi,“ segir Kristján að endingu.

Rætt er við Kristján í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir