Þórður Már Gylfason í Sansa er einn af stofnendum minningarsjóðs Arnars Dórs. Þórður hefur sett upp minningarhorn um vin sinn í Sansahöllinni með mynd af Arnari Dóri og persónulegum munum úr hans eigu. Von er á fleiri gripum í safnið að sögn Þórðar. Ljósm. Skessuhorn/kgk.

Halda minningu Arnars Dórs á lofti

Á fimmtudaginn hófst formlega söfnun í minningarsjóð Skagamannsins Arnars Dórs Hlynssonar, sem lést langt fyrir aldur fram 14. september síðastliðinn.

Það var Þórður Már Gylfason hjá fyrirtækinu Sansa sem hratt söfnuninni af stað, en sjóðurinn er stofnaður af Sansa, árgangi 1979 á Akranesi og Íþróttabandalagi Akraness. Mun Sansa láta 750 krónur af hverjum matarpakka sem pantaður er fyrir miðnætti í dag, miðvikudaginn 10. janúar, renna í minningarsjóðinn. Nýtti Þórður tækifærið til að skora á fleiri að leggja söfnuninni lið og hafa margir svarað kallinu. Félagar úr ´79 árgangnum munu hafa umsjón með og sjá um úthlutun úr sjóðnum ásamt starfsmanni ÍA. Verður úthlutað árlega til þeirra aðildarfélaga ÍA sem Arnar Dór tengdist; knattspyrnufélagsins, kraftlyftingafélagsins og golfklúbbsins.

„Arnar Dór var maður fólksins, það líkaði öllum vel við hann. Hann var alltaf í góðu skapi, nægjusamur, hlédrægur og kvartaði aldrei. En hann hafði auðvitað fullt af göllum líka. Hann var dálítið ferkantaður, sem við vinir hans höfðum gaman af. En hann hafði húmor fyrir sjálfum sér og tók alltaf vel í það ef við félagar hans vorum eitthvað að stríða honum,“ segir Þórður í samtali við Skessuhorn.

 

Mikil samstaða meðal Skagamanna

Að sögn Þórðar hafa viðbrögðin við stofnun sjóðsins verið afar góðar og fleiri viðburðir í undirbúningi til að halda minningu hans á lofti. „Það er til dæmis í bígerð minningarmót í golfi og við hjá Sansa ætlum að gera þetta að árlegum viðburði. En viðtökurnar nú hafa verið afar góðar. Þetta stefnir í að verða langstærsta vikan hjá okkur í Sansa til þessa. Nú þegar, á mánudegi, er búið að panta helming af því sem var pantað í síðustu viku, sem var einmitt metvika. Langflestar pantanir berast venjulega síðasta sólarhringinn þannig að ef fer sem horfir verður þetta einhver sprengja. Félagar Arnars hafa haft samband og boðist til að vinna um helgina við pökkun og að keyra út til að gera þetta hreinlega mögulegt. Það er því ekki hægt að segja annað en að fólk hafi tekið vel í söfnunina,“ segir Þórður ánægður. „Enda er alveg sama hvert maður fer, alls staðar er mikil ánægja með framtakið og mikil samstaða meðal Skagamanna um að halda minningu Arnars Dórs á lofti,“ segir Þórður Már Gylfason að endingu.

Næstkomandi laugardag verður opið kaffiboð í Sansa fyrir þá sem taka þátt í áheitaleiknum. Þeim s„skulda“ er boðið að koma og leggja féð með táknrænum hætti í golfpokann hans Arnars Dórs, sem nú hefur bæst í minningarhornið. Síðan verður farið með pokann í bankann og lagt inn á reikninginn. Brauða- og kökugerðin gefur köku í kaffiboðið og Þórður fullyrðir að sú terta verði ekki lítil. Jafnframt vill hann hvetja fólk til að koma með muni sem minna á Arnar Dór og leggja í hilluna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir